140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

framlagning stjórnarfrumvarpa.

[14:15]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að ég hafi verið að kveinka mér. Ég var hins vegar að vekja athygli á því að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru gjörsamlega ólíðandi. Það er ólíðandi að nokkrum mínútum áður en 1. apríl rennur upp hrúgist hér inn 54 stór þingmál frá ríkisstjórninni. Það var líka ólíðandi í fyrra að það voru 53 þingmál sem komu með sama hætti inn í þingið og 52 mál árið þar á undan.

Þetta er dæmi um sleifarlag, vont verklag frá þessari ríkisstjórn. Hæstv. forsætisráðherra var mjög borginmannleg á sínum tíma og talaði um verkstjórnarhæfileika sína. Nú sjáum við þá, ég ætla að fullyrða að ef hæstv. ráðherra mundi sækja um í verkstjórafélagi Íslands yrði henni umsvifalaust hafnað. Það er að verða með þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar, hún er mest farin að minna mig núna á gamla tómatsósuflösku. Fyrst reyna menn að hrista eitthvað, [Hlátur í þingsal.] lítið kemur úr þessu þangað til allt í einu þá spýtist allt innihaldið út úr flöskunni á síðustu stundu. Þannig er ríkisstjórnin farin að vinna, þetta er að verða ein allsherjarsósugerð (Forseti hringir.) af hálfu ríkisstjórnarinnar og þá er auðvitað ekki við góðu að búast. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)