140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:55]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held reyndar að það hafi verið í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið var sett á laggirnar í þeirri mynd sem síðar varð og ég man ekki eftir því að þingflokkur Vinstri grænna hafi stutt það sérstaklega. Ég held þvert á móti að formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi greitt atkvæði gegn þeirri breytingu ásamt öllum þingflokknum í heild sinni. Þannig að það er heldur ónákvæmlega með farið hjá hv. þingmanni.

Aðalatriðið er að engin reynsla hefur fengist á það hvort skynsamlegt sé að halda efnahagsmálunum í sérstöku efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Þeir sem leggja fram málið þurfa auðvitað að rökstyðja það. Það þýðir ekkert fyrir hv. þingmann að koma hér og ætlast til að aðrir svari því hvernig eigi að fara með það. Hæstv. ríkisstjórn hlýtur sjálf að geta rökstutt sínar eigin ákvarðanir. Hvernig stendur á því, og hv. þingmaður sagði raunar í andsvari sínu að þetta hefði gengið svo ljómandi vel, hvers vegna er þá verið að leggja niður efnahags- og viðskiptaráðuneytið? Hvers vegna er verið að gera það? Það stendur ekki steinn yfir steini í þessum málflutningi.