140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:45]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Hér hefur verið mikið um gagnrýni á þessa þingsályktunartillögu, mér heyrist sú þyngsta hafa komið frá stjórnarliðum, þannig að ég get ekki annað en reynt að vera svolítið jákvæður. Ég ætla til að byrja með að fjalla um tillögu sem kemur fram í þingsályktunartillögunni sem mér finnst býsna góð. Reyndar hef ég talað um að það gæti verið mjög sniðugt að gera þetta, að vísu fyrir löngu síðan, fyrir tíu árum eða svo, en það skiptir ekki öllu. Það er sú tillaga að koma upp einhvers konar sérstöku sjálfstæðu efnahagsráði óháðra sérfræðinga. Ég held að það sé góð tillaga.

Ég þekki vel hvernig þessu er háttað í Danmörku. Þar er Det Økonomiske Råd og yfir þeirri stofnun eru vitringarnir þrír sem svo mætti kalla eða „vismænd“. Ráðið gefur út tvær skýrslur á ári þar sem er tekið fyrir efni í dönsku efnahagslífi sem betur mætti fara. Þetta ráð, og skýrslur þess, nýtur mikillar virðingar í Danmörku og mikið mark tekið á því sem það segir. Það er því óhætt að segja að það sé hafið yfir gagnrýni, til dæmis pólitíska gagnrýni. Þá þarf að gera eitt. Í þessari þingsályktunartillögu er sagt að koma eigi á fót sérstöku sjálfstæðu efnahagsráði sem forsætisráðherra skipi í að fengnum tilnefningum, m.a. frá háskólanum. Ég held að þetta sé kannski veikleikinn í tillögunni þótt hún sé náttúrlega óútfærð. Í Danmörku var þetta til dæmis haft þannig að ríkisstjórnin skipaði fyrstu þremenningana sem eru vitringarnir þrír, en síðan hefur það verið þannig að þegar einn fer út koma þeir sér saman um hver komi inn í staðinn. Það hefur reynst ákaflega vel. Þá er ráðið algjörlega hafið yfir öll afskipti stjórnmálamanna.

Þetta er það sem ég vildi segja jákvætt um þessa þingsályktunartillögu.

Það er einkum tvennt sem ég mundi vilja gagnrýna. Annars vegar er það hugmyndin um að skipta upp efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og hins vegar að setja auðlindanýtinguna undir umhverfisráðuneytið og breyta því í umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Ef ég vík fyrst að síðara atriðinu tel ég að í eðli sínu eigi umhverfisráðuneyti að vera mjög íhaldssamt á allt sem lýtur að umhverfismálum. Það gefur augaleið að til ráðuneytis sem hefur slíkt eðli er óhjákvæmilegt að togist sérfræðiþekking og starfsmenn sem vilji nýta minna en til dæmis ef þessi mál heyrðu undir atvinnuvegaráðuneyti. Þannig að ég held að það sé ekki góð hugmynd að auðlindanýtingin sjálf sé í umhverfisráðuneytinu.

Hitt sem mig langar að benda á er tillagan um að færa peningamálastjórnina og fjármálastjórnina saman í ráðuneyti, með því að Seðlabankinn sé settur inn í fjármálaráðuneytið. Ég held að það fari ágætlega á því að hafa þetta sundurgreint. Auðvitað þarf að vera mikið samstarf þarna á milli til þess að svokölluð stefnublanda sé rétt, en ég held að betur fari á því að þetta sé hvort í sínu ráðuneytinu.

Mín megingagnrýni lýtur að því að Seðlabankinn sé slitinn frá fjármálamörkuðum og Fjármálaeftirlitinu. Ég er þeirrar skoðunar að bankaeftirlitshluti fjármálaeftirlits eigi að vera inni í Seðlabankanum. Ég er eindregið þeirrar skoðunar. Fjármálaeftirlit á einkum og sér í lagi að fylgjast með samkeppnismálum á fjármálamarkaði og neytendavernd. Neytendavernd á fjármálamarkaði er áfátt á Íslandi eins og við höfum séð og það þarf að styrkja þann þátt. Einnig þarf að horfa mun betur á fjármálalegan stöðugleika og það er ekki hægt að gera nema með því að hafa eftirlit með fjármálastöðugleikanum, sem Seðlabankinn hefur með höndum, og bankaeftirlitið saman. Þetta hef ég bent á og fleiri, m.a. Kaarlo Jännäri. Sú verkaskipting sem nú er er eitt af því sem leiddi til þess að kannski var ekki gripið jafnfljótt og ekki af jafnmiklum þunga og annars hefði mátt gera inn í þá atburðarás sem leiddi til hrunsins sem varð í október 2008. Jafnframt tel ég að ef sameina á Fjármálaeftirlit og Seðlabanka verði það mun erfiðara ef þetta er inni í tveimur ráðuneytum, fyrir utan að ég tel ekki skynsamlegt að Seðlabanki skuli vera algerlega slitinn úr samhengi við málefni fjármálamarkaða.

Hér er sagt að reyna eigi að koma á samræmdri hagstjórn þar sem fjármálastjórnin, peningamálastjórnin og gengismálin verði á sama stað. Það er rétt að benda á að vaninn er ekki sá að skilja gengismál frá peningamálastjórn. Þetta er sami hluturinn, peningamálastjórn og gengismál. Yfirleitt er bara talað um þessa tvo flokka, þ.e. fjármál annars vegar og peningamál hins vegar. (Gripið fram í.) Já. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir að leiðrétta mig af sínu alkunna innsæi.

Ég tel það því góða hugmynd, og mundi gjarnan vilja sjá hana í framkvæmd, að koma upp einhvers konar sjálfstæðu efnahagsráði. En ég vara eindregið við því að það sé forsætisráðherra sem skipi í það, heldur sé það algerlega aðskilið frá pólitíkinni svo að hún geti á engan hátt skipt sér af starfi þessara sérfræðinga.

Gallarnir sem ég sé eru í fyrsta lagi þeir að setja auðlindamál og umhverfismál saman. Ég held að þar sé togstreita á milli sem eigi að vera á milli ráðuneyta en ekki innan sama ráðuneytis, vegna þess að náttúrlega er ljóst að báðir þessir flokkar eru mjög mikilvægir og mikilvægt að þeir búi við rétta stofnanaumgerð.

Síðast en ekki síst tel ég ekki skynsamlegt að draga Seðlabankann út úr ráðuneyti sem sér um fjármálamarkaði. Ég held að það fari mun betur á því að það sé yfirsýn yfir fjármálamarkaði á einum stað. Þrátt fyrir að ég skilji að vissu leyti hugsunina hérna er hún of þröng. Hér er aðeins litið til peningamálastjórnarinnar en ekki til þess hlutverks sem Seðlabanki hefur á fjármálamarkaði.

Svo vil ég að lokum segja að ég skil ekki alveg af hverju alltaf er verið að rífa sundur og setja saman þessi ráðuneyti annað hvert ár. (Forseti hringir.) Væri ekki rétt að reyna að gera þetta bara einu sinni í samráði við til dæmis stjórnarandstöðu þannig að stofnanafyrirkomulagið geti verið nokkuð (Forseti hringir.) óumdeilt um einhverja hríð?