140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:07]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt er að það sé upplýst í byrjun þessa andsvars að það vakti athygli mína að hæstv. forsætisráðherra lætur svo lítið að vera hér í þinghúsinu í dag þegar þetta mál er rætt en viðkomandi ráðherra lét ekki sjá sig þegar óskabarn hennar var á dagskrá dag eftir dag í þinginu fyrir páska, þ.e. tillögur stjórnlaganefndar. Þetta er merkilegt og sýnir að hæstv. forsætisráðherra leggur ofurkapp á að koma þessu máli hér í gegn, en því miður er það svo að ekki er meiri hluti fyrir því og má þá þess vegna alveg líta svo á að það að ræða málið sé algjör tímaeyðsla, svo að það sé sagt hér.

Foringjaræðið í þessu frumvarpi er algjört, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kom inn á, vegna þess að hér er enn eitt málið komið fram til að sameina og rótast í Stjórnarráðinu sjálfu. Ég minni á að nú þegar vinna rúmlega 500 starfsmenn í Stjórnarráðinu og enn skal kratavætt og enn skal framselja vald til ráðuneytanna. Þetta er staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Það er alveg merkilegt í ljósi þess að áður fyrr var hægt að senda fyrirspurnir á forsætisráðuneytið, þ.e. fyrirspurnir sem snertu öll ráðuneytin. En hvað gerist þegar hæstv. forsætisráðherra kemst til valda og er hér að samþætta og sameina öll ráðuneyti? Jú, jú, það skal verða aðskilnaður á fyrirspurnunum héðan í frá eftir að hæstv. forsætisráðherra komst til valda. Og nú þegar þingmenn þurfa að fá svör við spurningum sínum sem ná til allra ráðuneyta skal það sent í hvert einasta einstakt ráðuneyti. Þetta er afturför að mínu mati, sérstaklega í ljósi þess þegar þetta eru upplýsingarnar sem við fáum.

Ég vil spyrja þingmanninn að lokum: Hvar sér hann í þessum samþættingartillögum ástæðu þess að aðstoðarmönnum ráðherra var fjölgað í 23? Og hin mikla peningaeyðsla (Forseti hringir.) sem fór í það, hvernig kemur það út úr þessum breytingum?