140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:29]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vel má vera að ráðuneytaskipan sé betur fyrir komið en hún er í dag, að hægt sé að færa fyrir því góð rök að sameina ráðuneyti, breyta hlutverkaskipan og annað slíkt. Þeim rökum er alls ekki teflt fram, hvorki í þessari greinargerð né í þessari umræðu.

Ég hefði haldið að eftir þriggja ára valdatíma þessarar ríkisstjórnar, sérstaklega þar sem tekið var á þessu máli í stjórnarsáttmála, hefði verið nægur tími til að undirbyggja vel með rökum ástæðuna fyrir sameiningu ráðuneytanna og breyttri hlutverkaskipan. Ég hefði haldið að það hefði verið vel þess virði að flýta sér hægt í þessu máli. Ég er ekkert að segja að ekki hefði átt að koma fram með vel undirbúið mál þar sem á sannfærandi hátt væri reynt að meta hvaða ábati væri af því að gera þessar breytingar. Það var bara ekkert gert.

Hér er verið að senda inn í þingið einhverja þingsályktunartillögu sem hægt hefði verið að rumpa saman á einum eða tveimur dögum og þetta er bara ekkert sannfærandi. (Gripið fram í.) Það er ekkert augljóst fyrir mér af hverju verið er að þessu, vegna þess að þetta kostar allt saman peninga, þetta kostar rask og sérstaklega í ljósi þess að menn hafa verið að hræra í þessum ráðuneytum á undanförnum þremur árum.