140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bendi á það að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir er hér í salnum og hún gerir ekki hina minnstu tilraun til að koma og skýra út fyrir þingmönnum hvað átt er við með þessari þingsályktunartillögu. Það var mjög óskýr málflutingur í gær um þessi mál og það er með ólíkindum að ekki skuli með einhverju móti verið reynt að koma til móts við það sem þessi þingsályktunartillaga gengur út á annað en að hér eru setningar „copy/paste“ algjörlega samhengislausar eins og ég las upp áðan. Það er eins og þetta sé tekið héðan og þaðan úr einhverjum skýrslum og sett í einhvern texta sem er mjög kratalægur og með þessum markmiðum sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson fór yfir. Það er talað um sameiningu stoðþjónustu allra ráðuneyta, samþættingu og betri samskipti. Þetta eru einhverjar almennar markmiðsyfirlýsingar án þess að nokkur tilraun sé gerð til að sýna fram á hvað átt sé við með þessari þingsályktunartillögu annað en að koma stjórnkerfinu í uppnám eina ferðina enn og það að hafa ríkisstarfsmenn hrædda og óttaslegna um hvað verði um þá og fjölskyldurnar. Það er þekkt kosningatrikk að gera alla óörugga í kringum sig og ná fylginu þannig til sín.

Mig langar til að grípa aðeins niður í atvinnumálakaflann þar sem ég er að ræða hér við fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, núverandi þingmann, Einar K. Guðfinnsson. Með leyfi forseta stendur hér:

„Þá býður sameining ráðuneyta sem fara með atvinnumál upp á aukna möguleika til sérhæfingar og aukið bolmagn til nýsköpunar og þróunarstarfs þvert á atvinnugreinar.“

Ég spyr hv. þingmann: Var áður fyrr einhver fyrirstaða gegn því að hér væri nýsköpun og þróunarstörf í atvinnumálum, (Forseti hringir.) sérstaklega þá sjávarútvegsmálum? Hvers vegna er þessi texti inni?