140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:42]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að upplýsa okkur örlítið um það hvað felst í þessari þingsályktunartillögu. Ég hef nefnilega átt erfitt með að átta mig á henni vegna þess að það er svo lítið sem kemur fram í henni.

Þegar við greiðum atkvæði um hana þarf ég sem þingmaður að taka ákvörðun um hvort ég ætli að styðja það að ráðuneytin heiti þeim nöfnum sem hér koma fram og að þau verði svona mörg. Þá staldra ég helst við umhverfis- og auðlindaráðuneytið og ég skil einfaldlega ekki hvert hlutverk þess á að vera. Til þess að ég geti tekið ákvörðun um hvort ég eigi að styðja það eða ekki þarf ég að vita hvort nauðsynlegt sé að hafa þetta ráðuneyti.

Það sem kemur fram í 3. þætti athugasemdanna með þingsályktunartillögunni er afskaplega lítið. Það kemur fram að efla á ráðuneytið og breyta nafninu í umhverfis- og auðlindaráðuneytið en hlutast á til um mótun og lögfestingu meginreglna umhverfisréttarins. (Forseti hringir.) Það getur varla verið verkefni fyrir heilt ráðuneyti. Síðan í öðru og þriðja lagi er talað um samstarf (Forseti hringir.) við atvinnuvegaráðuneytið. Á ráðuneyti umhverfismála þá að vera eins konar eftirlitsráðuneyti með atvinnuvegaráðuneytinu?