140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:54]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði viljað sjá fleiri virkjunarkosti í nýtingarflokki en bara í neðri hluta Þjórsár. Ég kom sérstaklega inn á Norðlingaölduveitu áðan. Þau rök sem eru til dæmis færð fyrir því að hafa Norðlingaölduveitu í verndun standast enga skoðun. Á það hefur Landsvirkjun bent og það þekkja allir sem hafa kynnt sér málið. Og að hengja það alltaf við verndun Þjórsárvera — það hefur bara ekkert með þau að gera. Eins og ég nefndi í ræðu minni áðan er það eins og ekki mætti fara í framkvæmdir á Seltjarnarnesi til að vernda eitthvað í Heiðmörk eða eins og ekki mætti fara í framkvæmdir í Þorlákshöfn til að vernda eitthvað við Úlfljótsvatn. Þetta eru 10 km í loftlínu. Þetta er einn hagkvæmasti virkjunarkostur okkar, bæði í umhverfislegu og efnahagslegu tilliti. Þetta er skýrasta dæmið um á hve rangri leið við erum með þessa afurð. Þessi virkjun kostar helminginn af því sem sambærileg virkjun kostar sem skilar sambærilegu afli.

Það er alveg ljóst og við vitum að inn komu fjölmargar umsagnir þar sem menn rökstuddu það að færa virkjunarkosti í nýtingarflokk. Ljóst er að á það hefur ekkert verið hlustað. Það sýnir hina faglegu vinnu, það þarf ekkert að ræða það frekar. Það er bara á einn veg sem niðurstaðan er. Ef við hefðum séð ráðherrana skoða það með jákvæðu hugarfari að gera breytingar í hina áttina líka hefði það aukið trúverðugleika plaggsins, en svo er ekki.

Við vitum alveg hvað ræður för. Það er pólitík sem ræður för, ómerkileg pólitík, þar sem skammarlega er farið með (Forseti hringir.) fjöregg þjóðarinnar, (Forseti hringir.) ég verð að segja það.