140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

sameining háskóla.

[10:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Mér þykir verst að hv. þingmaður vildi ekki spyrja mig um sameiningu Vinstri grænna og Samfylkingar því að ég veit að hv. þingmenn notuðu tækifærið fyrir sumardaginn fyrsta og á síðasta vetrardegi og ræddu mjög ítarlega meint orð mín í þeim málum þannig að það hefði kannski verið ágætt að fá tækifæri til að svara því.

Hvað varðar hins vegar framtíðarsýn fyrir háskólaumhverfið á Íslandi hef ég lagt mjög mikið upp úr því að fylgja þeirri stefnu sem lögð er til að mynda í stefnu Vísinda- og tækniráðs þar sem kveðið er á um samstarf á því sviði. Við höfum unnið að því í gegnum samstarfsnet opinberu háskólanna þar sem samræma á árangursmat kennara og er það sérstaklega rætt í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Litið er á það sem framfaraskref í háskólamálum að komið sé á samræmdu árangursmati. Við erum búin að tryggja nemendaflæði milli þessara skóla og satt að segja hefur nú sprungið út áhugi, ef við getum sagt sem svo, nemenda á því að sækja námskeið á milli opinberu skólanna. Það virðist til að mynda ganga mjög vel milli Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Háskóla Íslands, af því að hv. þingmaður nefndi sauðfjárrækt, en í raun og veru á milli allra þessara skóla. Í þá átt vil ég stefna. Ég hef hins vegar alltaf sagt að það kunni að vera skynsamlegt að sameina einhverja þætti skólastarfs hjá þessum skólum og að það geti hugsanlega endað með sameiningu. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að við leggjum grunninn þar fyrst.

Það sem ég legg mesta áherslu á er að við stöndum vörð um hið faglega starf sem unnið er í þessum skólum, hvort sem það er á Hvanneyri, Hólum, Akureyri eða við Aragötuna, að horfum á það sem við höfum fjárfest í og byggt upp á þessum stöðum með mjög góðum árangri. Allar þessar stofnanir skila árangri hvort sem er í kennslu eða rannsóknum og hafa mikilvægu hlutverki að gegna. Það er stóra málið. Hins vegar tel ég að við getum gengið lengra í því að sameina og samræma árangursmat, eins og ég sagði áðan, innritunarmál og ýmislegt er tengist þeim málum sem við getum kallað stjórnsýslumál háskólanna.