140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

sameining háskóla.

[10:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Varðandi sameiningar á háskólastigi liggur nú fyrir í drögum á netinu svokölluð einföldunarskýrsla Vísinda- og tækniráðs. Ég legg það til við hv. þingheim að við tökum hana til sérstakrar umræðu þegar umsagnir um hana liggja fyrir. Ég held að það sé mikilvægt að við ræðum þessi mál í þingsal og skoðum hvað við teljum geta áunnist út frá þeim tillögum sem þar liggja fyrir og út frá þeirri stefnu sem þegar hefur verið mörkuð af því að það liggur fyrir líka að sameiningar geta kostað sitt, svo ég haldi því til haga.

Hvað varðar fjárhagsstöðu þessara tveggja skóla höfum við unnið að því í menntamálaráðuneytinu að greina stöðuna og máta þessa skóla inn í það reiknilíkan sem aðrir háskólar fá úthlutað samkvæmt og við nýtum til að meta fjárþörf þeirra. Það er skoðun mín að þessir skólar ættu út frá því að fá aukið framlag í rekstur en það liggur líka fyrir að allir háskólar hafa þurft að sæta niðurskurði, þessir þar á meðal. Ég tel því mjög mikilvægt að við finnum einhverja lausn á því, ekki aðeins fyrir þessa skóla heldur í raun fyrir alla skólana og förum að horfa til þess hvernig við getum byggt upp framlag til háskólastigsins, því að eins og alþjóðlegur samanburður sýnir er framlag okkar til háskólastigsins í raun undir meðaltali OECD-ríkja og það er líka eitthvað sem við ættum að ræða í þessum sal.