140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

ummæli ráðherra um breytingar á Stjórnarráðinu.

[14:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mikilvægt að forseti beiti sér fyrir því að forsætisráðherra komi hér og skýri betur þessi ummæli sín sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson nefndi því að líka er fjallað um þessi orð í Morgunblaðinu í dag. Það er náttúrlega mjög sérstakt að forsætisráðherra skuli leggja fram tillögu og segja að sama skapi að tillagan sem forsætisráðherra leggur fram standist ekki stjórnarskrá. Hvers konar vinnubrögð eru það að fara inn í þingið með mál sem er augljóst að stenst ekki stjórnarskrá? Látum vera ef mál koma inn í þingið og síðar kæmi í ljós að senda þurfi þau til baka vegna þess að þau séu þannig unnin eða þau standist ekki stjórnarskrána.

Við erum öll hér búin að skrifa undir eið að stjórnarskránni og ég velti fyrir mér hvað forsætisráðherra er að fara með því að leggja vísvitandi fram mál, þingmál sem stenst ekki stjórnarskrána.