140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

ummæli ráðherra um breytingar á Stjórnarráðinu.

[14:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég gerði athugasemd við þessi orð hæstv. forsætisráðherra strax á miðvikudaginn var. Þetta mál snýst ekki um það hvort þetta sé fagleg, áhugaverð stúdía. Spurningin er einfaldlega: Hæstv. forsætisráðherra leggur fram þingmál og við lok umræðunnar um þingmálið segir hæstv. forsætisráðherra: Þingmálið sem ég er að leggja fram er í ósamræmi og stangast á við stjórnarskrá Íslands. Það þingmál byggir síðan á lagasetningu sem Alþingi samþykkti á sínum tíma og hæstv. forsætisráðherra greiddi atkvæði með og greiddi atkvæði með þeirri lagasetningu í heild sinni. Það gerði hæstv. forsætisráðherra vitandi vits um að það var hennar eigin niðurstaða að þessi lagasetning og þetta þingmál sem nú hefur verið flutt sé í ósamræmi við stjórnarskrá Íslands. Það er það sem þetta mál snýst um.

Við getum síðan, hver og einn einstakur þingmaður, haft einhverjar skoðanir á því hvort þetta sé rétt mat hjá hæstv. forsætisráðherra eður ei. Þetta mál snýst hins vegar um það að 1. flutningsmaður málsins segir um sitt eigið mál (Forseti hringir.) að það stangist á við stjórnarskrána. Það er alvarlegt mál. Það væri óhugsandi í nánast öllum lýðræðisríkjum og þeir sem flytja þingmál vitandi vits að það (Forseti hringir.) brjóti í bága við stjórnarskrána eiga auðvitað að segja af sér.