140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því undir lok ræðu hv. þingmanns, sem ég þakka fyrir, að hún rifjaði upp þegar hún kom sem ráðherra í ríkisstjórn að þessu ferli ásamt öðrum á sínum tíma og sem þingmaður væntanlega líka með einhverjum hætti. Það sem ég er að velta fyrir mér er hvort það hafi verið skilningur þeirra sem að þessu stóðu á sínum tíma að þegar tillaga kæmi til ráðherranna, eða þegar ráðherrar settu fingraför sín á hana, nú verð ég að taka fram að lögin sem hér um ræðir voru sett 2011, hvort meiningin hefði verið sú að þegar verkefnisstjórnin á hverjum tíma skilaði af sér færi það í eitthvert pólitískt mat áður en þingið tæki málið til umfjöllunar. Mér finnst þetta skipta miklu máli því að þótt lögin geri ráð fyrir heimild fyrir ráðherra að fara ofan í hlutina áður en þeir fara til þingsins þá er það ekki skilyrt. Það stendur ekki að ráðherra eigi að breyta eða fikta í tillögum sem koma heldur sé það eingöngu heimilt. Ég er að velta fyrir mér hvort þetta hafi verið sú hugmynd eða — það er reyndar orð um þetta í tísku um þessar mundir í fjölmiðlum sem kallast andlag — hvort það hafi verið andlag þessara vangaveltna að gera það með þessum hætti.

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann út í þau orð sem féllu í gær, og ég held að ég hafi ekki misskilið, þegar hæstv. umhverfisráðherra sagði að þær umsagnir sem stuðluðu að náttúruvernd væru veigameiri en aðrar. Ég get ekki skilið að eðlilegt sé að meta einhverja umsögn mikilvægari en aðra út frá skoðunum sem þessum eða út frá þeim upplýsingum að umsagnir fylgjandi náttúruvernd séu merkilegri en þær sem kveða á um að nýta eigi meira og (Forseti hringir.) þar af leiðandi sé skynsamlegra að taka mark á þeim og setja auðlind í vernd.