140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

fyrirætlaðar viðskiptaþvinganir ESB.

[14:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Að því er varðar síðari spurninguna get ég ekki fullyrt að bókunin ein og sér dugi í þessari deilu en hún er að minnsta kosti mjög sterk viðstaða. Því til viðbótar eru reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Mínir sérfræðingar sem þekkja þetta töluvert vel eru þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að grípa til tiltekinna aðgerða sem menn hafa verið að ræða nema þá með því að brjóta þessar reglur svo ég svari því nú.

Síðan verður hv. þingmaður að gera sér grein fyrir því að tillagan sem framkvæmdastjórnin leggur fyrir er í reynd eins konar verkfærakassi sem framkvæmdastjórnin getur, ef samþykkt er, að grípa til og þá mismunandi tækja eftir því hvort lönd sem þeir eru þá að beita aðgerðum gegn eru innan eða utan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Það er síðan alveg ákvörðun hjá framkvæmdastjórninni sem þarf að taka sérstaklega og ræða í hópi sem öll aðildarlöndin eiga fulltrúa í (Forseti hringir.) hvort gripið verði til slíkra aðgerða. (REÁ: Já, en …) Ég hef svarað þessu. Ég svaraði seinni spurningunni algjörlega skýrt.