140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér breytist ekki neitt. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, svokölluð rammaáætlun, og forseti leggur til að þingfundur standi lengur en fram yfir miðnætti sem ég tel mjög alvarlegan hlut. Þetta er enn eitt dæmi þess að þessi ríkisstjórn virðist ekki geta farið fram með mál sín að degi til. Það er ekki nýtt.

Ekki nóg með að hér þurfi að ræða öll mál í skjóli nætur heldur skal líka fara með þau fram í ófriði eins og þetta mál. Er hægt að fá hljóð í salinn, forseti?

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í þingsal.)

Það er nefnilega svo að hér hefur verið starfað að þessu máli í fleiri ár, hátt í áratug ef ekki lengur, í nefndum sem áttu að komast að samkomulagi um það hvernig orkunýtingu okkar skyldi háttað til framtíðar. Hafa þessar nefndir skilað mjög góðu starfi og er greinargerð þingsályktunartillögunnar um vernd og orkunýtingu mjög greinargóð að þessu leyti þar sem farið er yfir vinnu þessara starfshópa. Þar voru lögð fram ákveðin atriði en ríkisstjórnin fer fram með þetta mál í ófriði en ekki friði eins og ég sagði áðan. Þetta mál er sambærilegt sjávarútvegsfrumvörpunum sem lögð voru fyrir síðasta þing og það þing sem nú stendur yfir vegna þess að á sínum tíma, eins og í þessu máli, var komin sátt um sjávarútveginn hér á landi. Nefnd var skipuð með fulltrúum allra flokka og það var komin sátt í málið um hvernig ætti að skipa sjávarútvegsmálum okkar Íslendinga til framtíðar.

Það var of gott fyrir núverandi hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, og þurfti því að vinna það mál allt upp á nýtt og leggja fram frumvarp í ófriði en ekki friði í þinginu til að slá í klárinn og halda uppi gömlum vinnubrögðum. Þessari ríkisstjórn virðist algjörlega ómögulegt að hafa frið um mál sín. Ég nefni líka stjórnlagaráðsmálið sem mikið kapp var lagt á að fara með fram í ófriði en ekki friði.

Það mál sem nú er á dagskrá er sett fram í þeim ófriði sem ég er að fara yfir og ég ætla að leyfa mér að vísa í ályktun hagsmunasamtaka. Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sendi frá sér ályktun þann 17. apríl sl. og lýsti yfir miklum vonbrigðum með þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur tekið varðandi þessa þingsályktunartillögu, en samkvæmt henni verður gengið á svig við niðurstöðu þeirrar vönduðu og þverfaglegu vinnu sem unnin var á vegum verkefnisstjórnar rammaáætlunar, segir í þessari ályktun. Síðan stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Stjórn SASS skorar því á Alþingi að farið verði að tillögum verkefnisstjórnar um þá virkjunarkosti sem fara eigi í nýtingarflokk. Það á ekki síst við um virkjanir í neðri hluta Þjórsár sem koma hvað best út af mögulegum virkjunarkostum, bæði hvað varðar umhverfisáhrif og þjóðhagslega hagkvæmni og því brýnt að heimila Landsvirkjun að ljúka undirbúningsvinnu til að geta hafið framkvæmdir. Fyrir Sunnlendinga er um mikilvægar framkvæmdir að ræða sem varða nauðsynlega uppbyggingu og eflingu atvinnulífs á Suðurlandi.“

Hér kristallast þessi ófriður sem ríkisstjórnin stendur fyrir því að góð sátt var komin um þessa nýtingaráætlun áður en þessi ríkisstjórn tók til starfa. Það var komin það mikil sátt í þetta mál að það vantaði einungis að skipta kostunum niður í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk, en þá þurfti þessi verklausa ríkisstjórn sem nú er við völd — en ekki einn einasti ráðherra situr í þingsal til að hlusta á þetta mikilvæga mál — að komast með krumlurnar í málið. Við vitum öll hvers vegna það er, það er vegna þess að á stefnuskrá Vinstri grænna er að vernda Þjórsá. Eftir þessu hleypur Samfylkingin, líklega til að komast áfram með eina stefnumál sitt, umsóknina að ESB. Þetta er raunveruleikinn sem við landsmenn stöndum frammi fyrir. Hér eru stunduð hrossakaup um náttúru Íslands og um atvinnuuppbyggingu landsins, einungis til að þessir ráðherrar geti setið aðeins lengur í sætum sínum.

Samkvæmt þingsályktunartillögunni er komið að Þjórsá, Urriðafossvirkjun, Hvammsvirkjun og Holtavirkjun skuli fara í biðflokk. Það á bara að fresta því að taka ákvörðun um það hvort hagkvæmustu virkjunarkostir Landsvirkjunar verði nýttir og þá hægt að framleiða hér meira rafmagn. Þetta er nokkuð sem við sitjum uppi með.

Þessi þingsályktunartillaga er byggð á lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, en þar er ríkisstjórninni falið að vinna að framkvæmd áætlunarinnar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Það er merkilegt að skoða í þessu plaggi hvaða svæði ríkisstjórnin leggur til að setja í orkunýtingarflokk og hvaða svæði eru færð inn í biðflokk og svo einnig hvaða svæði hafa verið valin í verndarflokk. Ég var mjög hlynnt þessari vinnu á sínum tíma vegna þess að þetta er eina skynsamlega leiðin sem við stöndum frammi fyrir til að ná þjóðarsátt um það hvar á að virkja, hvar á að nýta auðlindir okkar og hvar á að vernda þær. Á meðan ákvæðið í lögunum er á þann hátt eins og það fór inn sem lög, að það þyrfti að endurskoða þetta á fjögurra ára fresti, er ekki von á góðu, þá er pólitíkin alltaf með puttana í þessum ákvörðunum vegna þess að við þurfum fyrst og fremst að horfa til framtíðar. Við þurfum að horfa til næstu 40–60 ára upp á hvar við eigum að nota kostina, taka ákvörðun og standa við teknar ákvarðanir, ekki hræra sífellt í ákvörðunum sem hafa verið teknar og ekki að nota þær í hrossakaupum stjórnmálaflokkanna eftir því hverjir eiga sæti í ríkisstjórn, hvort sem það eru Vinstri grænir sem hafa verið iðnir við að svíkja kosningaloforð sín eða einhverjir aðrir flokkar.

Mér finnst það einnig athugunarvert að biðflokkurinn skuli vera svo stór vegna þess að svo virðist sem núverandi ríkisstjórn hafi sett mjög álitlega kosti inn í biðflokk en geti ekki komið sér saman um hvaða virkjunarkostir eiga að vera þar inni. Svo eru afar fáir í hinum svokallaða nýtingarflokki.

Þó nokkrir virkjunarkostir eru komnir í verndarflokk og hef ég verið talsmaður þess að mjög verði vandað til vinnu á þeim svæðum sem eiga að vera í verndarflokknum. Raunverulega ætti að taka skrefið alla leið, að þeir sem eru í verndarflokki verði þar til frambúðar og ekki hægt að hreyfa við þeim. Við skulum sjá hvernig ríkisstjórninni tekst að klúðra þessum málum.

Vegna þess að biðflokkurinn er svo stór í þessari þingsályktunartillögu er hann þegar farinn að vekja upp deilur um það hvenær þeir virkjunarkostir sem eru í biðflokknum komist í nýtingarflokkinn. Eins og ég fór yfir áðan er það allt saman falið í stjórnmálunum, það er allt falið í þinginu varðandi það hvar á að virkja og hvar ekki. Það finnst mér mjög óheppilegt í ljósi þess að þá er sífellt verið að krukka í þetta, á fjögurra ára fresti. Það er ekki gott að mínu mati. Hér eru ákvæði um kosningar á fjögurra ára fresti og þá gæti þessi orkunýtingarstefna orðið að pólitísku bitbeini fyrir hverjar kosningar. Það tel ég sérstaklega óheppilegt ef við ætlum að byggja upp stöðuga og örugga atvinnu til framtíðar byggða á náttúruauðlindum okkar.

Það kemur svo sem ekki á óvart, frú forseti, að ríkisstjórninni takist að klúðra þessu máli eins og öðrum málum. Það hefur þegar komið fram að það er tæpast meiri hluti fyrir þessu máli í þinginu. Þess vegna hef ég kallað það óþarfa að ræða nú þetta átakamál. Ef ríkisstjórnin hefur ekki meiri hluta fyrir málinu kemur það til með að falla og þess vegna væri tímanum betur varið á þingi í að ræða þó einhver brýn mál eins og málefni heimilanna og alvöruatvinnuuppbyggingu í stað þess að ræða hér stanslaust mál sem tæpast er meiri hluti fyrir. Þetta er það sem við stöndum frammi fyrir.

Ég vísa líka í fyrirliggjandi fiskveiðistjórnarfrumvörp, það er tæpur meiri hluti eða ekki meiri hluti fyrir þeim en við þingmenn stöndum frammi fyrir því að ræða hér mál langt fram á nætur (Forseti hringir.) eins og kom fram í atkvæðagreiðslu áðan og hvergi forgangsraðað í starfi þessarar verklausu ríkisstjórnar.