140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:01]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði fyrr í ræðu minni og hef margoft sagt það á þinginu að ef ríkisstjórnin meinti eitthvað með því gildishlaðna heiti sínu að vera norræn velferðarstjórn og taka upp norræna stjórnunarhætti mundi slíkt meðal annars vera fólgið í því að þegar menn gerðu víðtækar breytingar á mjög stórum lagabálkum, stórum atvinnuvegum, stórum kerfum eins og við erum að tala um hér, þingsályktunartillögu um vernd og nýtingu náttúruauðlinda, yrði aðalvinnan lögð í það að ná sem víðtækastri sátt við sem flesta en ekki að loka þetta inni hjá sér í pólitískum bakherbergjum og koma síðan með niðurstöðu sem þegar er búið að krukka í hægri, vinstri og reyna að keyra það í gegnum þingið. Hitt hefði verið miklu betri og skynsamlegri niðurstaða og í anda þess sem ríkisstjórnin sagðist ætla að standa fyrir, þ.e. norrænni velferðarhugsun og norrænni stjórnun á landinu og því hvernig stjórnsýslan virkaði. Við höfum horft til þess en þessi vinna er í engu samræmi við það.