140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þar sem umræðan er nú að klárast vil ég geta þess að mér hefur fundist hún málefnaleg og frekar dempuð. Fram hafa komið skiptar skoðanir um ákveðin málefni og það er bara fínt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um það sem kom fram í andsvörum í dag, þ.e. að við höfum kannski ekki rætt fleiri möguleika. Reyndar hefur verið mikil vinna í rannsóknum eins og til dæmis gagnvart sjávarfallavirkjunum, finnst hv. þingmanni að við ættum hugsanlega að setja meira fé til rannsóknar í því? Margir halda því fram að í því séu miklir möguleikar.

Víða erlendis er orkan mjög dýr og þá er það spurning hvort skynsamlegt væri fyrir stjórnvöld, og þá hugsanlega í samvinnu við sveitarfélögin, að fara í einhvers konar átak í að spara rafmagn. Ég held að við séum að eyða töluvert miklu rafmagni. Við lítum á þetta sem sjálfsagðan hlut eins og svo margt annað sem þessi auðlind færir okkur, hvort við þyrftum að gera eitthvað frekar hvað það varðar.

Ég vil taka undir það sem hv. þingmaður sagði í lok ræðu sinnar sem sneri að því að við ættum að reyna að nýta enn frekar þær virkjanir sem við erum með til að ná meiri framleiðslu út úr þeim án þess að breyta neinu nema þá hugsanlega vélbúnaði. Eitt slíkt dæmi er einmitt vestur á Snæfellsnesi með Rjúkandavirkjun. Í marga áratugi, vænti ég, hefur verið bent á möguleika á að fara í þær framkvæmdir, sem hefðu ekki áhrif á náttúruna. Er hv. þingmaður þá að tala um að hvort sem virkjanirnar eru stórar eða smáar færum við almennt út í að reyna að nýta þær betur?