140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:39]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er svo sem gamalkunnur málflutningur sem hefur komið fram hérna æ ofan í æ í þessari umræðu, að það hafi verið gerðar breytingar á lögum og ferlinu í raun og veru breytt með lögum í miðjum klíðum og hugsunin hafi verið að kalla eftir frekari umsögnum frá hagsmunaaðilum eða þeim sem láta sig málið með einhverjum hætti varða.

Það sem maður sér hins vegar eru hin pólitísku fingraför. Það er sú einstefna að færa virkjanir úr nýtingarflokknum í biðflokk í nánast öllum tilvikum. Þar með er verið að vekja upp ákveðna tortryggni því að auðvitað voru mismunandi sjónarmið í þeim umsögnum sem komu fram, annars vegar þeirra sem vildu ganga lengra í verndunarátt og hins vegar þeirra sem vildu ganga lengra í nýtingarátt eða fylgja þeirri þingsályktunartillögu sem lögð var fram á sínum tíma í kynningarskyni eins og hæstv. ráðherra rakti.

Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að á bak við allt þetta mál er ákveðinn pólitískur veruleiki. Hann er sá að í báðum þingflokkum stjórnarflokkanna voru uppi mjög stíf sjónarmið í þá veruna að fækka bæri þeim virkjunum sem settar hefðu verið í nýtingarflokk og fjölga þeim virkjunum sem settar væru í biðflokk. Fyrir þessu liggur m.a. flokksleg samþykkt landsfundar Vinstri grænna sem er mjög afdráttarlaus. Þegar maður sér þetta er eiginlega ekki hægt að horfa fram hjá því og það er augljóst mál að eins og ríkisstjórnin hefur meðhöndlað málið hefur það valdið tortryggni.

Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Finnst hæstv. ráðherra það ekki vera áhyggjuefni að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki getað haldið betur á þessum málum en svo að eftir allt sem á undan gekk endi 13 ára vinna í höndum ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) með því að vakin er upp tortryggni og deilur um mál sem ætlunin var að setja niður?