140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[19:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég nefna það sem hv. þingmaður talaði um í sínu fyrra andsvari. Hann virtist halda að með þessum lögum værum við að reyna að komast fram hjá lögum um ríkisábyrgðir. Það er rangt. Við leggjum hins vegar til að ekki verði gerðar eins ríkar kröfur til þessa félags sem er algjörlega í opinberri eigu og kröfur sem Ríkisábyrgðasjóður gerir til einkaframkvæmdar sem er algjörlega í einkaeigu en ekki opinberri.

Virðulegi forseti. Ef ég má vil ég lesa nokkur orð úr niðurstöðukafla skýrslu Ríkisábyrgðasjóðs en þar stendur:

„Standi vilji Alþingis til þess að ríkið fjármagni gerð Vaðlaheiðarganga telur Ríkisábyrgðasjóður raunhæfara að ríkissjóður lágmarki áhættu sína með því að fjármagna langtímalánið á markaði áður en framkvæmdirnar hefjast.“

Það er þessi möguleiki sem er í stöðunni því að það sem ríkissjóður (Forseti hringir.) gerir er auðvitað að taka lán til lengri tíma þannig að þá framlengjum við í láninu þar til aðstæður lagast á markaði (Forseti hringir.) ef óvissan verður mikil á árinu 2018.