140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[19:40]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér held ég að grundvallarmisskilningur sé hjá þingmanninum. Í fyrsta lagi eru Vaðlaheiðargöng ekki á samgönguáætlun þannig að röð mun ekki breytast á öðrum samgönguverkefnum vegna þeirra. Það er algjörlega skýrt. Og út af hverju er það? Það er vegna þess að þau göng byggja á veggjöldum. En eins og ég sagði áðan er vissulega áhætta sem fylgir göngunum en sú áhætta gæti verið að á ríkissjóð féllu 2–3 milljarðar á næstu 35–40 árum. Það er rangt að setja dæmið upp þannig, og það er hreint og beint ósatt að þetta sé á samgönguáætlun og þetta muni breyta forgangsröð.

Ef þingmaðurinn hefði hins vegar rétt fyrir sér í þessu sambandi, að þetta mundi breyta samgönguframkvæmdum, t.d. Norðfjarðargöngum, þá mundi ég ekki styðja þessa framkvæmd, það liggur algerlega klárt fyrir. Ef það reynist vera rétt þá mun ég ekki styðja framkvæmdina.

En frá málinu er gengið þannig að það trufli ekki aðrar framkvæmdir á samgönguáætlun, þannig er lagt upp með það og þess vegna ég styð það.