140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:45]
Horfa

Huld Aðalbjarnardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um heimild til handa ráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að fjármagna gerð Vaðlaheiðarganga. Farið er fram á heimild til að veita ríkisábyrgð á lánum til verkefnisins til að fjármögnunin verði eins hagstæð og mögulegt er. Ríkisábyrgðasjóður hefur staðfest að miðað við ákveðnar forsendur beri ríkissjóður takmarkaða fjárhagslega áhættu við umrædda heimild til fjármögnunar jafnvel þótt takist ekki að endurfjármagna lánin á almennum markaði árið 2018.

Einnig blasir við og kemur fram í heildstæðu mati á lánveitingunni að efnahagslegur ávinningur þjóðarinnar til lengri og skemmri tíma vegna þessara framkvæmda er verulegur, atvinnuskapandi til styttri tíma og samgöngubót með tilheyrandi arðsemi til lengri tíma. Um er að ræða sérstaka samgöngubót og sérstaka framkvæmd sem fullyrt hefur verið að komi ekki niður á öðrum samgöngubótum á samgönguáætlun, þar á meðal Norðfjarðargöngum sem hefðu nú þegar þurft að vera komin til framkvæmda.

Frú forseti. Leiðin til að takmarka óvissu í forsendum um tekjur Vaðlaheiðarganga og lágmarka þannig áhættu ríkissjóðs enn frekar er augljóslega að auka umferðina um göngin, setja alvöruþunga á atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum og nýta þá orku sem verið er að virkja á svæðinu til atvinnusköpunar í héraði — atvinnuuppbyggingu sem lengi hefur verið í umræðunni, atvinnuuppbyggingu sem Þingeyingar hafa lagt mikla og vandaða vinnu í að undirbúa, atvinnuuppbyggingu sem allir þingmenn ættu að þekkja til, atvinnuuppbyggingu sem verður til þess að stækka hagkerfi þjóðarinnar, atvinnuuppbyggingu sem skilar mörgum beinum og óbeinum störfum fyrir norðan og sunnan. Með því að nýta tækifærin sem blasa við til að fjölga störfum og umsvifum hvort sem um ræðir í frumvinnslu, iðnaði eða þjónustu í Þingeyjarsýslu, jafnvel stórfelldri ferðaþjónustu á dreifbýlli svæðum, verður hagkvæmni Vaðlaheiðarganga bara jákvæðari. [Kliður í þingsal.]

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en vonast til að nú hilli undir framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng, framkvæmdir sem fjölga störfum, framkvæmdir sem sýnt hefur verið fram á að eru þjóðhagslega hagkvæmar. Okkur er ekki til setunnar boðið. Hagkerfi þjóðarinnar þolir ekki lengri bið. Hefjum framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng. Nýtum tækifærin til atvinnuuppbyggingar á öllum sviðum vítt og breitt um landið. Síðast en ekki síst, nýtum mannauðinn í landinu, þekkinguna og viljann. Vinnum saman að leiðum til lausna.

(Forseti (ÁI): Forseti biður hv. þingmenn um að halda fundi utan þingsalarins. Í salnum á að vera einn fundur.)