140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna umræðna sem urðu í síðustu viku um að smábátasjómenn innan Landssambands smábátaeigenda væru kjarasamningslausir. Enn hefur ekki tekist að gera kjarasamning við Landssamband smábátaeigenda. Ég þekki þetta mál mætavel sem formaður í verkalýðs- og sjómannafélagi í mörg ár.

Í síðustu tilraun sem gerð var til að ná samningum við Landssamband smábátaeigenda af hálfu Sjómannasambands Íslands voru þeir samningar felldir af útgerðarmönnum innan Landssambands smábátaeigenda. Í dag er enn á ný verið að reyna að ná samningum og enn eru samningslausir smábátasjómenn vítt og breitt um landið.

Í vinnu minni við endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða hef ég lagt mikla áherslu á að skilyrða eigi úthlutun nýtingarleyfa og aðgengi að sjávarauðlindinni, að viðkomandi útgerðir starfi eftir gildum kjarasamningum og að brot á því geti þýtt riftun á nýtingarleyfi. Ég lagði fram bókun í starfshópi um endurskoðun á fiskveiðistjórnarlögunum sem skilaði af sér skýrslu fyrir tæpum tveim árum, en nú tel ég að það reyni á hvort kjarasamningur náist við Landssamband smábátaeigenda því að ég tel mikið í húfi. Löggjafanum er að mínu mati ekki stætt á öðru en að skilyrða aðgengi að sjávarauðlindinni, m.a. með þeim hætti að útgerðir uppfylli þessi skilyrði og hafi gilda kjarasamninga við áhafnir sínar. Það eru sjálfsögð mannréttindi árið 2012 og ég mun gera hvað ég get til að þetta verði með þeim hætti.