140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í tilefni af þeirri umræðu sem komið hefur upp í dag í sambandi við skuldamál heimila las ég í Morgunblaðinu í morgun að mikil áform væru í gangi af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að koma með mikil úrræði fyrir vorið í þeim efnum. Ef svo er er það auðvitað fagnaðarefni en ég vildi eiginlega nota tækifærið í þessari umræðu til að biðja hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna að upplýsa eitthvað um það hvað er í pípunum í þeim efnum. Það er stutt eftir af þinginu þannig að því fyrr sem slíkar hugmyndir koma fram, þeim mun betur gefst okkur tækifæri til að vinna í þeim. Ef það sem haft er eftir nokkrum hv. þingmönnum stjórnarflokkanna í Morgunblaðinu í morgun á við rök að styðjast skora ég á þá að koma fram með þær hugmyndir þannig að hægt sé að fara að vinna með þær í þinginu.

Það var annað mál sem ég kom fyrst og fremst upp til að ræða, það að þessa dagana, núna í þessari viku, eru töluverðar hræringar á vettvangi Evrópusambandsins út af sjávarútvegsmálum. Við vitum og lesum í blöðum að þar eru í bígerð reglur sem kunna að leiða til þess að reynt verði að beita okkur Íslendinga mjög hörðum refsiaðgerðum vegna þess að við stöndum fast á okkar rétti í makrílmálum. Ég vildi nota þetta tækifæri til að skora á þá þingmenn sem starfa á vettvangi utanríkismálanefndar að taka þetta upp við utanríkisráðherra þar sem svo virðist sem íslensk stjórnvöld taki þetta ekki nægilega alvarlega. (Forseti hringir.) Það lítur út fyrir að þau afgreiði allar svona hræringar sem einhverjar yfirlýsingar sem Evrópumenn nota til heimabrúks en átti sig ekki á þeirri hættu (Forseti hringir.) sem hér getur vofað yfir.