140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

málefni Farice.

[15:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ekki er hægt að ræða málefni Farice gagnastrengsins öðruvísi en líta til fortíðar og horfa aðeins á söguna. Þann 26. febrúar árið 2008 voru undirritaðir samningar milli Verne Holdings, fyrirtækis í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar og fleiri aðila, Landsvirkjunar, Farice, sem rak þá Farice 1 sæstrenginn, og Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar upp á 20 milljarða kr. Inni í þeim samningi var sala og kaup á raforku, gagnaflutningi, húsum og lóð fyrir nýtt, alþjóðlegt gagnaver við Keflavíkurflugvöll. Krafa fyrir þessum samningi og rekstur þess kallaði á aðgang að nýjum sæstreng með mikla flutningsgetu sem fékk nafnið Danice. Þessi samningur var í raun forsenda þess að Danice gagnastrengurinn var lagður á sínum tíma. Hugmyndin var síðan að Verne Holdings gagnaverið mundi tengja saman endapunkta strengjanna Farice og Danice í London og Amsterdam og búa þannig til hringtengingu á milli landanna og þessara tveggja stærstu netmiðstöðva Evrópu.

Í millitíðinni varð bankahrun á Íslandi og íslenska ríkið fékk Farice með Danice sæstrengnum í fangið, með öðrum orðum, reksturinn sem sneri að þessum strengjum var ríkisvæddur. Eftir stendur eftir að búið er að hagræða hjá fyrirtækinu og íslenska ríkið er komið með puttana þar inn. Íslenska ríkið er með 28% í A- og B-hlutum fyrirtækisins, Landsvirkjun með 26,69 í A- og B-hlutum, Arion banki með 43,4% í B-hlutum og Landsbankinn er með 1,05%. En þegar tekið er tillit til mismunandi atkvæðavægis milli A- og B-hlutabréfa skiptist það þannig að íslenska ríkið og Landsvirkjun fara með yfir 80% eignarhalds í fyrirtækinu en Arion banki með tæp 20%.

Ég spurði fjármálaráðherra 9. júní 2011 út í ríkisábyrgðina sem er á sæstrengjunum og hvort afskrifa hefði þurft skuldir vegna þeirra þarna á þessu árabili. Svarið var á þessa leið, frú forseti, með leyfi forseta:

„Ríkisábyrgð er á hluta þeirra verðtryggðu langtímalána Farice ehf. sem til var stofnað vegna lagningar Farice og Danice sæstrengjanna. Alls nema verðtryggðar skuldir með ríkisábyrgð 7 milljörðum kr. en heildarskuldir félagsins voru um 9,3 milljarðar. Í viðskiptaáætlun fyrir lagningu Danice sæstrengsins var gert ráð fyrir að gagnaver mynduðu kjölfestuna í tekjum af þeirri fjárfestingu.“

Það voru því aldrei neinar forsendur fyrir því að fara í Danice sæstrenginn en pólitíkin hagaði því svo til á þessu tímabili, árabili, að viðvörunarorð voru látin sem vind um eyrun þjóta og farið var af stað í þessu jafnvel þótt vitað væri að þetta færi svona.

Fyrir nokkrum dögum barst minnisblað frá fjármálaráðherra til fjárlaganefndar þar sem farið var fram á að virkja þessa ríkisábyrgð sem ríkið lofaði skömmu eftir hrun, sem er mjög alvarlegur hlutur, sérstaklega í ljósi þess að þarna er um fjármálafyrirtæki að ræða með eignarhald sem ætti nú að bera einhverja ábyrgð. Nú þegar vantar inn í reksturinn um 250 milljónir, en búið er að gera samning við fjármálaráðherra um að greiddar verði 350 milljónir af fjáraukalögum. Sú beiðni kom eins og þruma úr heiðskíru lofti í fjárlaganefnd því að allir héldu að allt væri í himnalagi með þennan rekstur, en nú skal þetta tekið af fjáraukalögum. Er samningurinn til fimm ára og er ekki vitað hversu mikið ríkið þarf að borga út í tengslum við hann.

Mig langar því til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hver var ástæða ríkisábyrgðar Danice á sínum tíma og hvers vegna var það sameinað Farice svo eftirminnilega í eitt fyrirtæki þegar endurskipulagningin fór fram? Hvers vegna veitti ríkið víkjandi lán og hvers vegna er búið að virkja ríkisábyrgðina með þessum gjörningi? Hvað finnst hæstv. fjármálaráðherra um að fyrirhuguð er (Forseti hringir.) mikil samkeppni á gagnaleiðaramarkaðnum þegar Emerald Network kemur með gagnaflutningastreng til landsins jafnvel í sumar og ekki seinna en næsta vor, sem veldur þá algjöru tapi fyrir ríkið?