140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

lögreglulög.

739. mál
[17:07]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir margt sem kom fram í ræðu hv. þm. Einar Kristins Guðfinnssonar. Það kom fram í máli hans að hann telur að frumvarpið sem kemur hér fram í dag sé um margt betra en frumvarpið frá árinu 2009. Nú er það þannig að sporin hræða virkilega þegar kemur að því að ræða um hagræðingu og hvernig hún kemur niður á landsbyggðinni. Á undanförnum árum hefur mikið verið hagrætt í ríkisrekstrinum og okkur hefur fundist þetta koma þónokkuð mikið niður á landsbyggðinni og almannaþjónustu þar.

Við þekkjum dæmi um að lögregluumdæmi á Vesturlandi voru sameinuð í eitt lögregluumdæmi í Dölum og Borgarfirði. Ég vil rifja upp atriði frá því í fyrrasumar þegar brotist var inn í verslun Samkaupa í Búðardal. Lögreglumaður sem var í Búðardal á sínum tíma er þar ekki lengur og var þar ekki á þessum tímapunkti. Það var rúmur klukkutími í að lögregla kæmi á staðinn eftir að innbrotsþjófur réðst þar á starfsmann verslunarinnar. Í þessu tilfelli tóku íbúar í Búðardal, ungir og vaskir menn, að sér að reyna að finna innbrotsþjófinn og handsama hann. Ég velti fyrir mér hvort við megum eiga von á þessu, að öryggi borgaranna verði ekki tryggt þegar við ætlum að fara í svona hagræðingar og fækka þessum umdæmum svo að lögreglustjóri til dæmis á Vesturlandi annars vegar og Vestfjörðum hins vegar eigi að vera einn og hinn sami. Maður óttast að það leiði til enn frekari hagræðingar og verði enn meira skorið niður þegar frá líður.