140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[12:29]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir ræðu hans, yfirgripsmikla og málefnalega. Það var kannski eitt atriði efnislega sem ég vildi staldra við og ræða við þingmanninn. Það er þegar hann fjallar um EES-ríkin sem hafi gengið til liðs við Evrópusambandið og að ekkert þeirra hafi notað jafnmikinn tíma og virðist stefna í hvað Ísland varðar. Nú er það þannig að það hefur ekkert EES-ríki gengið í Evrópusambandið frá því fyrir miðjan 10. áratuginn þegar Norðurlöndin, Svíþjóð og Finnland auk Austurríkis gengu þangað inn. Mikið vatn er runnið til sjávar síðan það var. Vinnubrögð Evrópusambandsins sjálfs hvað þetta varðar voru einnig með öðrum hætti á þeim tíma. Evrópusambandið var þá að fara í 15 ríki, en eru nú 27 eins og við þekkjum.

Ég vil inna þingmanninn eftir því hvort hann sé ekki sammála mér um að það hafi að sjálfsögðu mikil áhrif í þessu efni að verklagsreglur Evrópusambandsins varðandi stækkun og það hvernig farið er í viðræður við ný umsóknarríki eru með allt öðrum hætti núna en voru á þeim tíma. Það kann, að minnsta kosti að talsverðu leyti, að valda því að Ísland þarf meiri tíma í þessu aðildarferli en önnur EES-ríki sem á fyrri stigum gengu til liðs við Evrópusambandið.