140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[18:32]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér kom í hug hin ágæta tilvitnun: „Mikil er trú þín kona“, þegar ég hlustaði á ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schram, þegar hann hélt hér mikla lofræðu um Evrópusambandið og kosti þess. Ég held að enginn annar þingmaður hafi komist með tærnar þar sem hann hafði hælana í þessu máli, nema ef vera skyldi hv. þm. Guðmundur Steingrímsson.

Hv. þingmaður kom víða við í ræðu sinni þegar hann ræddi kosti Evrópusambandsins og evrunnar og efnahagsmál þar. Hann ræddi hér meðal annars um áhrif á gengi og olíu. Nú flytjum við inn olíu fyrir 55 milljarða á ári. Hv. þingmaður hefur haft mikinn áhuga á hinu græna hagkerfi. Við erum að eflast í því að nýta náttúru landsins til að framleiða eldsneyti. Við erum að reyna að nýta raforku til að framleiða eldsneyti á samgöngutæki og gætum náð gríðarlegum árangri í því ef við einsettum okkur það, mun meiri en nokkur Evrópusambandsþjóð. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki hin rétta leið að reyna að framleiða sem mest hér innan lands af þessum hlutum og fara í aukna framleiðslu til að auka útflutning, hvort það sé raunverulega ekki eina leiðin til að tryggja efnahag í landinu. Þá mun það engu skipta hvort við höfum krónu eða einhvern annan gjaldmiðil; ég kem aðeins inn á evruna í seinna andsvari mínu.

Lykillinn að því að hér sé traust efnahagslíf er sá að við flytjum mun meira út en við þurfum að flytja inn. Við þurfum sennilega að flytja út fyrir um 60–80 milljörðum meira en við gerum í dag, það er mismunurinn á innflutningi og útflutningi.

Ég vil gjarnan að þingmaðurinn komi aftur upp og svari því hvort hann treysti því ekki að við getum framleitt okkur út úr þessu og treyst efnahag landsins með þeim hætti og þar með gjaldmiðlinum.