140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[21:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fellst á að það hefur komið fyrir í mínu lífi að ég hafi haft rangt fyrir mér, en ég held að svo sé ekki núna. En það skiptir ekki máli vegna þess að ég er aldrei hræddur við að horfast í augu við veruleikann þegar hann starir á mig. Ef það er svo sem hv. þingmaður segir þá kemur það bara í ljós. Ég held hins vegar að svo sé ekki. Ég held því fram að það sé rangt hjá hv. þingmanni að þær kannanir sem hafa verið gerðar sýni þetta — hugsanlega einhverjar netkannanir, til dæmis á ákveðnum útvarpsstöðvum, en alvörukannanir sýna þetta ekki. Og tek ég hv. þingmanni vara fyrir netkönnunum eins og lektor í Háskóla Íslands var að segja við þjóðina í útvarpi af allt öðru tilefni í fyrradag.

Í þessu efni hef ég algerlega sett minn vilja fram skýran. En ég er ráðherra, ég er handhafi framkvæmdarvalds og ég skipa ekki þinginu fyrir. Hv. þingmaður hefur aldrei orðið þess var. Hann starfar í ýmsum nefndum sem örugglega tengjast málasviði mínu með einhverjum hætti og ég hef aldrei gert það, samanber hversu fast ég hef svarið af mér þann morgunsprett sem tekinn var í tiltekinni nefnd fyrr í dag.

Ég er þeirrar skoðunar að til þess að menn geti tekið upplýsta ákvörðun þurfi allt að liggja fyrir um málið sem taka á ákvörðun um. Núna er staðan þannig að við erum komin á lokasprettinn að því marki að eftir eru örfáir kaflar, sem við vitum að verða auðvitað erfiðir. Ég dreg enga dul á það. Kostnaðurinn er meira og minna frá. Við erum búin að vinna rýnivinnuna og alla spurningavinnuna. Við erum búin að klára stóran hluta af samningunum. Það er ekkert öðruvísi. Og ef menn ætla að reyna að fá sem mest út úr því sem fram er reitt af peningum þá er auðvitað, eins og hv. þingmaður Þór Saari sagði í dag, það allra vitlausasta sem hægt er að hugsa sér að stöðva samningana. Ég bið hv. þingmann (Forseti hringir.) afsökunar á því að ég skuli brosa. Ég veit að hann fann að því í dag að stundum er ég ekki alltaf leiðinlegur en mér finnst (Forseti hringir.) gaman að þessari umræðu og undrast það af hverju hún stendur ekki lengur.