140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[21:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki finn ég þann áhuga eða skilning á honum, t.d. í (Gripið fram í: Þú ert alltaf …) skrifum eins af merkustu hugsuðum Sjálfstæðisflokksins sem er Styrmir Gunnarsson. Bendi ég bara á grein frá því í gær á evropuvaktin.is. Ég er einn af hugsanlega fáum en hins vegar mjög dyggum lesendum hans og virði hann fyrir skoðanir hans þó að ég sé ekki þeim sammála að öllu leyti.

Ég get fullvissað hv. þingmann um að það er aldrei nein kergja í samskiptum af minni hálfu við neinar þjóðir en ég svara ærlega. Það þýðir ekkert fyrir hv. þingmann að koma hingað og spyrja mig spurninga og verða svo hálfkörg sjálf ef ég svara þeim af hreinskilni. Ég sagði hv. þingmanni nákvæmlega hvað mér fannst. Þetta voru efnislegar staðreyndir sem ég fór með um fjárfestingarsamninginn og vegabréfaáritanir. Auðvitað er ég hundspældur yfir því. Ég bara viðurkenni það. Mér finnst ekkert gott að vera eitt af Norðurlöndunum og hafa öðruvísi kerfi en þau gagnvart þessu mikla stórveldi. Það skaðar að ýmsu leyti getu okkar í viðskiptamöguleikum, a.m.k. er kvartað undan þessu við mig af hálfu þeirra sem þau stunda. Ég fel það ekki.

Ég get líka sagt hv. þingmanni frá því að ég er nú að senda einn minn besta mann, sjálfan ráðgjafa utanríkisráðherra, til Bandaríkjanna bráðlega, m.a. til að ræða ákveðin mál sem þessu tengjast. Auðvitað er sumt sem er líka hægt að hrósa. Við höfum náð ákveðnum árangri, en ég hefði viljað sjá betri og gagnkvæm tengsl millum okkar. Ég neita því ekki neitt.

Að öðru leyti, frú forseti, þakka ég hv. þingmanni sérstaklega fyrir áhuga hennar á utanríkismálum. Í dag, eins og oft áður, hefur hún opnað augum mín fyrir ýmsum hlutum og það er algjörlega hárrétt sem hv. þingmaður sagði á engilsaxnesku áðan, en ég sagði það líka sjálfur. Ég sagði að ég þekkti alveg þetta ástand sem Sjálfstæðisflokkurinn er í núna vegna þess að ég hef sjálfur verið í því. (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Þú ert það …) Að því leyti til er þetta þá systrabylta.