140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

staðan í úrlausn skuldavanda heimilanna.

[15:53]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum enn það mikilvæga mál sem skuldastaða heimilanna er. Við höfum rætt málið oft og mikið í sérstökum umræðum og í umræðum um lagafrumvörp og þingsályktunartillögur. Í þeim umræðum hafa yfirleitt mæst vel sjónarmið efnahagsstöðugleika og nauðsynjar þess að grundvallareiningar samfélagsins, heimilin, búi við það öryggi og þann stöðugleika sem heimili eiga að byggja á. Gripið hefur verið til margra aðgerða og vil ég þar sérstaklega minna á vaxtabætur og sérstakar vaxtaniðurgreiðslur sem koma inn á heimili landsmanna nú um mánaðamótin. Mér finnst of lítið hafa verið gert úr þessu góða úrræði, kannski vegna þess að það úrræði hverfur oft í hít heimilisbókhaldsins en eru í raun og veru gjarnan allt að þriðjungur vaxta- og verðbótagreiðslna heimilanna. Kannski þarf að skoða það að þessi greiðsla verði samtímagreiðsla.

Segja má að vandinn sé þríþættur. Það er skuldavandi, sem snýr að eignastöðu og því óréttlæti sem fólk telur sig hafa orðið fyrir, hækkað verðlag, lækkað fasteignaverð, stórfelldar hækkanir verðbættra skulda hafa orðið til þess að sparifé sem bundið er í fasteignum hefur gufað upp en ekki kannski það sem lá í banka. (Gripið fram í.) Síðan á fólk í greiðsluvanda, fólk á hreinlega ekki fyrir þeim greiðslum sem það hefur skuldbundið sig til að greiða. Og síðan er það tekjuvandi vegna atvinnumissis eða minni atvinnu, því eins og við vitum hafa Íslendingar gjarnan bjargað sér með því að vinna bara talsvert meira en nú er það úrræði oft ekki til staðar.

Við erum alltaf að fá betri og betri upplýsingar um þann hóp sem skuldar. Það virðast vera tekjulágir einstaklingar og það virðast vera barnafjölskyldur í flestum tekjuhópum og það finnst mér við þurfa að skoða sérstaklega. Það er samt sláandi að um það bil fjórðungur landsmanna á í skuldavanda, annar fjórðungur í greiðsluvanda og 10% eiga í vanda með hvort tveggja. Þar að auki hefur réttlætiskenndin orðið fyrir verulegu hnjaski vegna aukinnar skuldsetningar, eigið fé er horfið og gjaldeyrislán hafa verið leiðrétt og það skiptir máli að fólk sjái að ákveðið réttlæti sé til staðar. Erfitt er að finna það að nágranninn við hliðina sé að fá eitthvert úrræði sem maður fær ekki sjálfur. (Forseti hringir.) Við þurfum að finna þessa lausn í góðu samstarfi efnahagsstjórnunar og öruggs fjárhags heimilanna.