140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[18:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir hans ræðu. Ég fagna því að fram sé komið frumvarp til laga um neytendalán. Ég vil trúa því að ef við klárum frumvarpið séum við að stíga skref í átt til betri neytendaverndar á fjármálamarkaði. Ég vil trúa því að það sé markmið okkar allra.

Ég er búinn að lesa í gegnum frumvarpið og þar eru mjög stórir þættir undir. Ég tel afskaplega mikilvægt að við tökum fasteignalánin inn eins og þarna er um að ræða, en það veldur mér áhyggjum að í athugasemdunum kemur fram að ráðuneytið hafi ekki talið ástæðu til að óska sérstaklega eftir umsögnum fyrir þinglega meðferð frumvarpsins. Ég skil ekki alveg röksemdafærsluna á bak við það. Það kemur líka fram að þetta muni þýða kostnaðarauka fyrir lánveitendur.

Nú eru nokkrir dagar þangað til þinginu lýkur og þetta er gríðarlega mikilvægt mál. Ekki hefur verið óskað eftir umsögnum í ráðuneytinu og ég veit ekki hvenær við fáum umsagnir frá þeim fjölmörgu aðilum sem þetta þurfa að skoða.

Ég vildi kannski byrja á því, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. ráðherra hvenær hann teldi raunhæft fyrir okkur að ljúka þessu. Ég held að mikill vilji sé til þess í þinginu til að klára þetta mál, en ég held að það sé að sama skapi fullkomlega augljóst að við þurfum að vanda mjög til verka.