140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[19:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við verðum að læra af þeim mistökum sem við gerðum þá, það væri gersamlega fráleitt að ætla að fara þá leið að gera þau mistök aftur. Hv. þingmaður nefndi að menn hefðu verið að vinna þetta á síðustu stundu, um miðjar nætur, ekki hægt að fá upplýsingar og þær upplýsingar sem komu fram gáfu ekki rétta mynd. Síðan hefur komið á daginn að það að gera mistök í þessu máli var gríðarlega dýrt fyrir íslensku þjóðina. Við munum aldrei geta reiknað þann kostnað sem kom til út af þeim óþægindum sem fólk varð fyrir. Og ástæðan fyrir því að fólk hefur getað leitað réttar síns er vegna þess að ákveðnir aðilar tóku sig til af sjálfsdáðum og fóru að benda á veilur í framkvæmdinni sem byggja á gallaðri lagasetningu. Ég setti sjálfur á heimasíðuna mína reiknivél til að sýna fram á hversu óhönduglega tókst til.

Ef við ætlum að klára þetta núna — ég vek athygli á því að núna er kvöldið fyrir 1. maí og margir hv. þingmenn voru búnir að gera aðrar ráðstafanir enda átti enginn von á að hér yrði fundur og mundu örugglega mun fleiri vilja taka þátt í umræðunni en gera núna og fylgjast með því sem hér fer fram. Það er bara ekki boðlegt að ætla að keyra þetta í gegn. Það eru 13 þingdagar eftir, vanalega tekur 14 daga fyrir umsagnaraðila að senda inn umsagnir og það skiptir gríðarlega miklu máli að umsagnir séu vandaðar. Það kom bara í ljós í umræðunni að hæstv. ráðherra, eins og hann orðaði það sjálfur, er ekki sérfræðingur í hlutum sem eru mjög mikilvægir og ég hrósa hæstv. ráðherra fyrir hreinskilnina, en það sýnir okkur að við þurfum að vanda til verka og þetta vinnulag núna er alveg út í hött.