140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[19:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það sem við horfum upp á í kvöld er ákveðin örvænting stjórnarliðsins. Það er þannig að á síðasta degi sem heimilað var að leggja fram frumvörp án þess að leita sérstaklega afbrigða var kastað inn í þingið á sjötta tug mála, stórra og smárra.

Nú erum við í þeirri stöðu sem við erum í í dag. Hv. þingmenn stjórnarliðsins líta greinilega á sig sem einhvers konar atkvæðagreiðsluvélar, svo ég noti enn og aftur orðalag hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar, og koma hér rétt svona í heimsókn kl. 3 til að greiða atkvæði en hlaupa síðan eins og fætur toga út úr þinghúsinu. Síðan er gert ráð fyrir að hér fari fram umræður um aðskiljanleg mál sem formaður þingflokks Samfylkingarinnar sagði að væru mjög stór og mikil mál og það á að taka þessi mál í gegnum 1. umr. kvöldið fyrir 1. maí. Þetta er auðvitað algert virðingarleysi við þingið. Þetta er virðingarleysi við þá þingmenn sem vilja taka þátt í þessari (Forseti hringir.) umræðu, það var komið að óvörum aftan að þingmönnum með þessari umræðu í kvöld og er auðvitað hneyksli (Forseti hringir.) að stjórnarliðið skuli þá ekki lufsast til að vera viðstatt og taka þátt í umræðunni.