140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[20:34]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er enn þeirrar skoðunar að það hefði verið skynsamlegt á sínum tíma að beita vaxtabótakerfinu til að reyna að draga úr þeirri miklu þenslu sem við sáum myndast á íbúðamarkaðnum. Vaxtabæturnar eru í eðli sínu hugsaðar til þess að greiða niður fjármagnskostnað. Þegar við sáum þessa þróun byrja að gerast á sínum tíma var ljóst að með því að vera með þær rausnarlegu vaxtabætur sem þá voru varð fjármögnunin auðveldari þannig að það má segja að með þeim hætti hafi fólk átt meiri aðgang að ódýru lánsfé sem var þá auðvitað til þess fallið að fólk fór í stærri fjárfestingar en það endilega réð síðan við eins og allir vita.

Við þekkjum að þegar svona fasteignabólur myndast eru fyrir því ýmsar ástæður. Sennilega er sú veigamesta aðgangurinn að ódýru lánsfé og það er það sem menn stóðu frammi fyrir hér á landi og annars staðar, aðgangi að mjög miklu ódýru lánsfé. Þess vegna sjáum við að svona fasteignabólur eru ekki einsdæmi hér á landi, við sjáum þær á Írlandi, Spáni og auðvitað fyrst og fremst í Bandaríkjunum sem var gleggsta dæmið um þetta. Kannski er það það sem ýtti af stað þessari miklu kreppu í heiminum sem við súpum nú öll seyðið af.

Síðan má líka bæta við hlutum eins og skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu sem sannarlega ýttu undir mikið kapphlaup á íbúðamarkaðnum. Það þarf að hyggja að mjög mörgum málum. Vandinn var og er líka í dag þannig að frá þessum sjónarhóli séð er samkeppni um lántakendur. Bankarnir eru líka að koma inn á íbúðalánamarkaðinn núna til dæmis með því að bjóða fram óverðtryggð lán sem eru á margan hátt mjög aðlaðandi fyrir marga. Í því getur líka falist hætta, menn verða að átta sig á því að þegar fram í sækir og vaxtakjör kunna að breytast, sem við vitum ekki nákvæmlega, en í því felst áhættan, getur þarna verið að myndast einhver áhætta sem við þurfum að takast á við (Forseti hringir.) síðar meir.