140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[21:41]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal játa að á sínum tíma skildi ég vel þessa 200 manna reglu og ég féllst á hana vegna þess að forsendan fyrir henni var þá sú að ætlunin væri að greiða með gagnsæjum hætti niður kostnað við dreifingu og flutning í dreifbýli sem væri umfram dreifingarkostnað í þéttbýli. Það eru auðvitað rök í sjálfu sér að segja sem svo að ekki sé eðlilegt að jafna þetta í gegnum orkufyrirtækin, það er þá eðlilegra að gera það með gagnsæjum hætti í gegnum ríkissjóð þannig að mönnum sé það ljóst. Það hefur líka verið nefnt að ef við ætluðum að hverfa algjörlega frá þessari reglu og jafna þetta í gegnum orkufyrirtækin væru áhrifin veruleg á þéttbýlisstaði, t.d. á svæði Orkubús Vestfjarða eða hjá Rarik. Niðurstaðan er út af fyrir sig ekki óskynsamleg í því að hafa einhver viðmið þarna.

Hins vegar verður þetta mjög afkáralegt eins og hv. þingmaður benti á. Það sem er dálítið sérkennilegt er að það skuli vera allt aðrir hlutir sem valda því síðan að farið er að endurskoða þessa reglu, að miða við 50 íbúa í staðinn fyrir 200, en þá er um leið „sjanghæjað“ upp magninu sem má þá leggja til grundvallar sem aftur hefur þessi neikvæðu áhrif. Því má kannski segja að það sé tekið burtu með vinstri hendinni það sem sú hægri veitir mönnum. Það er auðvitað mjög sérkennilegt þegar þannig er staðið að máli.

Á sínum tíma var sú pólitíska ákvörðun tekin að reyna að greiða þetta í gegnum þetta fyrirkomulag. En stóra málið í þessu er þá auðvitað það að menn finni lausnirnar til að lækka húshitunarkostnaðinn. Þær tillögur sem nefndin, sem ég hef margoft gert hér að umtalsefni, lagði fram fela í sér mjög verulega lækkun á húshitunarkostnaði einkanlega í dreifbýlinu, ekki bara í húshitunarkostnað þeirra 35 þúsund manna sem búa við háan húshitunarkostnað almennt, heldur er það sérstaklega mikil lækkun hjá þeim sem búa á þeim svæðum sem núna hafa búið við þyngsta kostnaðinn. (Forseti hringir.) Þess vegna er mjög sérkennilegt að ríkisstjórnin hafi ekki haft dug í sér til þess að klára þetta mál og leggja það (Forseti hringir.) fram í frumvarpsformi núna fyrir vorið.