140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi. Fréttin sem birtist á Stöð 2 frá Kristjáni Má Unnarssyni um þetta tiltekna mál var sláandi og allt að því hrikaleg. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram hjá hv. þingmanni og fleirum að eftirlitsiðnaðurinn á Íslandi virðist vera búinn að ná allt of miklum tökum á ýmsum atvinnugreinum.

Það mál sem hér er gert að umtalsefni, skeldýrarækt, er ekkert ósvipað því sem atvinnuveganefnd fundaði um í vetur fyrir og eftir áramót, um fiskeldi og það mikla bákn í kringum það til að fá leyfi. Það kom fram í þessari frétt um skeldýrarækt líka hvernig þetta gengur þar fyrir sig.

Vafalaust hefur mönnum gengið gott eitt til að setja lög um skeldýrarækt sem gert er í framhaldi af því að vinnuhópur skilaði af sér í júní árið 2008 til þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ráðuneytið samdi þetta frumvarp að lögum um skeldýrarækt og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þingsins tók það í gegnum þingið á síðasta ári og það birtist okkur í þessum svakalega ferli sem greint var frá í þessari frétt. Það er hrikalegt og ég ímynda mér að sá aðili sem var viðtal við þarna hljóti að gefast upp á þessu reglugerðarfargani og öllum þeim stofnunum sem hann þarf að fara til og sækja um leyfi hjá.

Virðulegi forseti. Ég held að þetta hafi komið einhvern veginn þannig út að það þurfi að sækja um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar, síðan þarf leyfi Matvælastofnunar sem leitar svo umsagnar Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Landhelgisgæslu, Orkustofnunar, Siglingastofnunar og viðkomandi sveitarfélags. Þetta er (Forseti hringir.) skilmerkilegur ferill eða hitt þó heldur, virðulegi forseti. Svar mitt er: Jú, ég held að það sé full ástæða til að taka lögin upp og skoða þau á vettvangi Alþingis vegna þess að ég sé það í umsögn að ekki var (Forseti hringir.) meiningin að gera þetta svona flókið. Þetta átti að vera til að gera þetta einfaldara en það hefur tekist frekar illa.