140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

lengd þingfundar.

[15:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ekki ætla ég að fara að taka þátt í deilum um það hvernig lífið var á fyrri þingum enda hélt ég að við sem vorum kosin á þing fyrir þetta kjörtímabil hefðum ætlað að breyta ýmsu til betri vegar.

Varðandi þá forgangsröðun sem ríkisstjórnin hefur sett á í dag og ætlar að fá lengdan þingfund, væntanlega til að koma þeim málum í gegn, vil ég benda á að á listanum eru fjölmörg mál sem væri mjög áhugavert að ræða, til að mynda öryggi borgaranna eins og í máli nr. 10 og mál er varða skuldastöðu heimila, mál nr. 12 og 13. En það er óskiljanleg forgangsröðun hjá ríkisstjórninni að setja hér á dagskrá tillögu um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, rétt áður en stjórnin fer frá og vonandi gerist það reyndar sem fyrst. Ég held og tek undir það sem hér hefur komið fram og reyndar á undanförnum dögum, að hér sé nauðsynlegt að forgangsraða málum. Það er lítið eftir af þinginu og ef við eigum að vanda vinnubrögðin og klára þetta af einhverju viti (Forseti hringir.) væri skynsamlegra að taka mál sem mundu koma borgurunum, heimilunum og fyrirtækjunum til góða í staðinn fyrir að þvælast í þessu. Ég mun segja nei við þessari beiðni forseta um lengdan þingfund.