140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:47]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vissulega gæti breytingin leitt til þess að fleiri embættismenn hefðu með málaflokka eins og til dæmis ferðamálin að gera sem hafa vissulega nokkuð sérstaka stöðu í stjórnsýslunni. Ég held hins vegar að ótvírætt sé að boðleiðin frá atvinnugreininni til hins pólitíska leiðtoga ríkisstjórnarinnar á viðkomandi sviði mundi lengjast því að í staðinn fyrir að ráðherrann hafi með höndum iðnaðarmál, ferðamál, byggðamál og nýsköpunarmál, ef ég man rétt, mundu bætast við fjöldamargir tímafrekir, viðamiklir málaflokkar sem krefjast mikils tíma og athygli þess ráðherra sem í hlut á. Ég held því að þarna vegist á kostir og ókostir.

Ég tek undir það sem fram kemur í sjónarmiðum ýmissa hagsmunaaðila og vísað er meðal annars til í þeirri greiningu sem oft er talað um í þessari umræðu, að aðgangur eða samskiptaleið atvinnugreinarinnar að stjórnvöldum verður erfiðari og lengri. Í staðinn fyrir að eiga möguleika á því að fá viðtal við ráðherra um brýn mál er hætta á að menn lendi í því að fá viðtal við aðstoðardeildarstjórann í deild 17b. Það er bara veruleikinn. Það er bara það sem birtist í ummælum margra hagsmunaaðila, þeir hafa þungar áhyggjur af því. Ég held að það sé algjör óþarfi fyrir okkur að flækja hlutina með þeim hætti að það verði afleiðingin.