140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:14]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að ég bind mig við tímaramma, það er hárrétt. Ég spyr á móti hv. þm. Lúðvík Geirsson: Er eðlilegt að gera breytingar, (Gripið fram í.) og þetta eru umfangsmiklar breytingar sem við erum að tala um, skömmu fyrir kosningar? Ég tel að svarið sé nei. (Gripið fram í: Já.) Það eigi að gera svona breytingar á fyrri hluta kjörtímabils af því að þær séu þess eðlis. Þetta er mikið rask. Hér var sveitarstjórnarstigið nefnt og ég held að þetta sé meira rask en þær breytingar sem menn gera þar. Ég held að ef sveitarstjórn ætlaði að gera mjög miklar breytingar, umdeildar breytingar, ári fyrir sveitarstjórnarkosningar eða rétt fyrir kosningar, yrði það mjög umdeilt. Ég held að menn mundu ekki ná samstöðu um það. Ég bind mig því svolítið við tímarammann. Það á ekki að gera svona stórar breytingar skömmu fyrir kosningar.