140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Er þingmaðurinn þar með að segja að vegna þess að það hefur komið fram hjá Ríkisendurskoðun að raunverulegur sparnaður náist ekki þegar markmið þar um séu sett af þinginu þá sé ríkisstjórnin búin að gefast upp á því og setji þau því ekki inn í frumvörp og þingsályktunartillögur sem eru til umræðu?

Ég hef gagnrýnt það í þessu máli að ekki skuli vera kostnaðargreining á því hvað þetta kostar í raun og sannleika. Hent var inn blaði í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem stóð að talið væri að þetta mundi kosta 125–225 milljónir, eins og þingmaðurinn fór yfir í ræðu sinni varðandi húsnæði. Þarna eru 100 milljónir á milli. Það þýddi ekki á hinum almenna vinnumarkaði við samruna fyrirtækja að skjóta svona út í loftið. Hvernig í ósköpunum eigum við þingmenn að geta starfað hér og ákveðið fjárlög ef framkvæmdarvaldið getur ekki sagt til um hvað hlutirnir kosta? Þetta eru forkastanleg vinnubrögð.