140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Í umræðu um Gini-stuðul vilja sjálfstæðismenn oft gleyma fjármagnstekjunum, en það vil ég sagt hafa í þessum sal að gögnin tala skýru máli, jöfnuður hefur aukist fyrir tilstuðlan jafnaðar- og vinstri stjórnar á Íslandi.

Hér er verið að ræða örlítið um stöðuna í sjávarútvegi og ég vil segja það, virðulegi forseti, að það er ánægjulegt að fylgjast með því hvernig umsvif og afkoma í íslenskum sjávarútvegi hefur aukist á undanförnum árum. Veiðigjald hefur verið lagt á útgerðarfyrirtæki og hefur það numið um 1–6% af framlegð fyrirtækjanna. Það þýðir að sjávarútvegsfyrirtæki hafa getað haldið eftir rúmlega 94% af framlegðinni fyrir sig sjálf til að standa straum af fjármagnskostnaði, nauðsynlegri viðhaldsfjárfestingu, tekjuskattsgreiðslum og arðgreiðslum.

Með núverandi frumvarpi er lögð til veruleg hækkun á veiðigjaldi og þess freistað að veita þjóðinni hlutdeild í arði auðlindarinnar. Ég hef fyrir mitt leyti engan áhuga á því að ganga of nærri útgerðinni með innheimtu gjalda enda mikilvægt fyrir okkur öll að viðhalda góðri arðsemi innan greinarinnar, hún er okkur mikilvæg. Hins vegar tel ég ekki síður mikilvægt að þjóðin öll njóti að minnsta kosti aukins hluta af þeim viðbótararði sem auðlindin er að skapa um þessar mundir. Frumvarpið leggur til að þegar útgerðin hefur staðið skil á kostnaði og tekið eðlilega arðsemi út úr sínum rekstri eigi fyrirtækin að skipta því sem eftir stendur með almenningi. Fáir hagsmunaaðilar hafa hins vegar komið fram og tjáð sig um hvernig eigi að skipta þessum arði á milli útgerðarmanna og almennings, hvað sé hið eðlilega veiðigjald. Það væri áhugavert að heyra hugmyndir útgerðarmanna og fulltrúa þeirra hér á þingi með hvaða hætti við eigum að skipta þeirri arðsemi sem útgerðin skapar á milli almennings, þ.e. eiganda auðlindarinnar, og þeirra sem nýta auðlindina, þ.e. útgerðarmanna.

Almenningur og útgerðarmenn eiga að skipta með sér þessum viðbótararði og alþingismenn eiga að komast að niðurstöðu í vinnunni á vettvangi nefndarinnar um hver sé hin eðlilega skipting á þeim viðbótararði sem auðlindin er að skapa um þessar mundir.