140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

kreppa krónunnar.

[11:55]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég þakka þeim sem hóf þessa umræðu fyrir að koma málinu á dagskrá í þinginu, þetta er sannarlega stórt og alvarlegt mál. Mér hefur þótt skorta mjög á að innan ríkisstjórnarinnar væri talað einum rómi um hvaða lausnar væri rétt að leita. Við höfum annars vegar stjórnarflokk, Samfylkinguna, sem segir að eina leiðin sé sú að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru og svo hins vegar stjórnarflokk, Vinstri græna, sem lýst hafa miklum efasemdum um að það sé rétta leiðin. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur ítrekað sagt að ekki komi annað til greina en að krónan sé að minnsta kosti jafngildur kostur og aðrir sem ræddir verða í þessu samhengi. Það má taka undir með þeim sem hóf þessa umræðu um að skynsamlegt væri að hafa fleiri kosti með ef menn ætla að skoða þetta mál í stærra samhengi.

Ég verð þó að lýsa efasemdum um að það geti verið skynsamlegt að taka hér upp enn annan innlendan gjaldmiðil og láta þá brenna inni sem fjárfest hafa í gömlu krónunni. Ég held að fram á veginn litið kynni það að draga enn frekar úr trausti á opinberum fjármálum á Íslandi og trausti á Íslandi sem fjárfestingarkosti. En það er hárrétt sem hér hefur komið fram að meðal þess sem skiptir mestu máli í heildarsamhengi hlutanna er að okkur takist að laða hingað nýja fjárfestingu og bæta þannig greiðsluflæðið inn til landsins, það er grundvallaratriði. Okkur hefur ekki gengið vel í því efni, við höfum verið að hræra mjög í skattkerfinu, menn hafa verið með mjög afturhaldssamar hugmyndir um orkunýtingu í landinu. Það hefur ekki beint verið aðlaðandi að koma hingað inn sem nýr fjárfestir og þeim hefur nánast verið haldið frá landinu.

Ég kalla eftir því að menn taki málið fastari tökum í þverpólitísku samráði vegna þess að sum mál eru þess eðlis að það verður að reyna (Forseti hringir.) að vinna þau þvert á flokka. Önnur mál getum við síðan tekist á um hér, til dæmis hvert skattstigið á að vera og hvar við eigum að skera niður, hvernig við eigum að reka heilbrigðisþjónustu og byggja vegi og annað þess háttar. En við höfum skyldu til að láta reyna á samstöðuna um þetta mál, gjaldmiðillinn, (Forseti hringir.) grunninn undir efnahagskerfinu.