140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þessi svör og vangaveltur. Ég hef einmitt velt þessu fyrir mér og þar sem þingmaðurinn talaði um lög um mat á umhverfisáhrifum þá er verið að boða það hér og er komin inn í umhverfisnefnd enn meiri herðing á því mati sem á að fara fram við framkvæmdir samkvæmt þeim lögum. Jafnframt skulum við ekki gleyma því að í þinginu er rammaáætlun sem nú þegar er öll í uppnámi vegna andstöðu Vinstri grænna við þá flokkun sem fram kemur í þingsályktunartillögunni sem rammaáætlun á að byggjast á. Það vita allir að ríkisstjórnarflokkarnir komust með puttana í rammaáætlunina og breyttu því plani sem þó var búið að vera 10–12 ára sérfræðingavinna, sérfræðingar unnu að þeirri rammaáætlun og okkar hæfasta fólk, en það var of gott til að vera satt fyrir þessa ríkisstjórn. Þessu var breytt og það setti málið allt í uppnám sem leiðir hugann að því hvernig fari með nýtingar- og umhverfismál í sameinuðu umhverfis- og auðlindaráðuneyti fyrst ekki er einu sinni hægt að koma þessari nýtingaráætlun í gegnum þingið án þess að allt sé upp í loft.

Við vitum að það er tæpt ár til kosninga sem betur fer þannig að við sjáum fram á að núverandi ríkisstjórn situr ekki mikið lengur en ég treysti þeirri ríkisstjórn ekki til að fara með sameinað umhverfis- og auðlindaráðuneyti einfaldlega vegna þess að innan Vinstri grænna er mjög hávær rödd mjög harðsnúinna umhverfisverndarsinna sem hafa náð því í gegn að verndun skuli ganga framar virkjun auðlinda og atvinnusköpun hér á landi til framtíðar sem er mjög alvarlegur hlutur.

Það hafa komið fram eins og ég segi athugasemdir við þetta. Ég spurði hv. þm. Pétur Blöndal fyrr í morgun einmitt um Landsvirkjun því að þar liggja miklar auðlindir undir og nýting auðlinda verður (Forseti hringir.) að vera til staðar gagnvart Landsvirkjun. Hér er ekkert talað um hvert Landsvirkjun á að fara eða annað. Hvaða álit hefur þingmaðurinn á því?