140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[19:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í máli mínu áðan og einnig í andsvari við hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, en við sátum bæði í þingmannanefndinni, fór ég yfir niðurstöður þingmannanefndarinnar um breytingar sem þyrfti að gera á lögum um Stjórnarráðið og af hverju þær voru lagðar til. Það stóð hvergi að fækka ætti ráðuneytum niður í átta og byrja einhvern hringleik með undirstofnanir ráðuneytanna. Það stóð hvergi. Það stóð einmitt að styrkja ætti ráðuneytin, auka fagþekkingu, ábyrgð og gagnsæi í stjórnsýslunni. Um það snerist málið.

Ég verð að segja eins og er að eftir sameiningu innanríkisráðuneytis og velferðarráðuneytis tók það allt drjúgan tíma og ég er ekki enn sannfærður um að það muni skila sér að fullnustu. Ég held að það sé erfitt fyrir einn ráðherra að hafa yfirsýn yfir þann málaflokk. Ég tel fullvíst að það taki einhvern tíma, jafnvel nokkur ár, að byggja upp fagþekkingu og reynslu innan hvers ráðuneytis sem muni skila sér í skilvirkri opinberri þjónustu og stjórnsýslu.