140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Það er að vissu leyti samhljóma þeim sjónarmiðum sem ég setti fram í ræðu minni í dag varðandi þá togstreitu um auðlindir þjóðarinnar sem gæti orðið ef umhverfis- og auðlindaráðuneytið verður sett á stofn og sér í lagi ef við höfum þessa vinstri stjórn eitthvað áfram við völd, sem við vitum að verður ekki.

Það hefur sýnt sig í störfum ríkisstjórnarinnar að verndunin er sett framar hagsmunum þjóðarinnar að því leyti að ekki er farið í framkvæmdir og þeir virkjunarkostir ekki nýttir sem hagkvæmastir eru, t.d. í neðri hluta Þjórsár eins og þingmaðurinn fór yfir. Þeim var kippt út úr rammaáætlun til að uppfylla kröfur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs varðandi umhverfismál og í staðinn fær Samfylkingin að halda Evrópusambandsumsókn sinni áfram.

Ég var mjög slegin yfir þeim fréttum fyrir nokkrum vikum að búið væri að segja upp samningamanninum okkar, Tómasi H. Heiðar, sem hefur staðið fast í fæturna hvað varðar rétt okkar til hvalveiða gagnvart Evrópusambandinu; og svo var honum falið það mikla samningastarf að standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar í makríldeilunni. Þessi embættismaður stóð sig of vel að mati hæstv. utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, og var látinn fara úr nefndinni. Það segir okkur að stöðugt er verið að brjóta niður varnir okkar Íslendinga gagnvart þessari Evrópusambandsumsókn.

Hv. þm. Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fullyrti fullum fetum að þær breytingar sem verið væri að ræða í dag væru runnar undan rifjum Evrópusambandsins, að það væri krafa Evrópusambandsins að ráðuneytunum væri skipt upp með þessum hætti og því væri þessu máli haldið til streitu.

Mig langar að biðja hv. þingmann að deila með okkur skoðunum sínum á þeim fullyrðingum hv. þm. Jóns Bjarnasonar.