140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna kom þingmaðurinn að merg málsins. Það er einkennilegt að horfa upp það á að sá þingmaður sem hefur setið hér í tæp 35 ár, borið jafnréttisstjörnuna á brjósti sér og talað fyrir jöfnuði, sérstaklega launajöfnuði kynjanna, skuli nú leiða ríkisstjórn sem sker niður kvennastörf og leiðir ríkisstjórn á þeim tíma þegar launamisrétti milli karla og kvenna er að aukast í samfélaginu. Hæstv. forsætisráðherra hlýtur að vera mjög áhyggjufull yfir þessum tíðindum, eða hvað? Nei, hæstv. forsætisráðherra lætur eins og henni komi þetta ekki við og það sem hún talaði um í þessum ræðustól áður en hún varð ráðherra virðist allt vera gleymt og grafið. Eins og til dæmis það að hún skuli ekki einu sinni muna að hún er ræðudrottning þingsins, hélt einu sinni ræðu í rúmar 11 klukkustundir þegar hún sat í stjórnarandstöðu og kemur svo hér hálfskælandi fram og talar um að stjórnarandstaðan sé óbilgjörn gagnvart sér þegar einmitt hún er orðin forsætisráðherra. Þetta eru náttúrlega vinnubrögð sem ekki er hægt að bjóða upp á árið 2012.

Úr því að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson talar um niðurskurð í heilbrigðisþjónustu úti á landi langar mig til að benda á að það er heldur engin tilviljun að verið er að taka heilbrigðisþjónustu landsbyggðarinnar niður. Það er fyrst og fremst gert til að réttlæta byggingu nýs landspítala því að til að forsvaranlegt sé að fara í þær framkvæmdir þarf að flytja alla veika skrokka á Íslandi þangað inn. Heilbrigðisþjónustan er fyrst tekin niður úti á landi til að hægt sé að flytja þessa veiku sjúklinga í framtíðinni inn á þennan landspítala, sem á að taka 100% lán fyrir á himinháum vöxtum og ekki fyrir séð hvernig það fer vegna þess að þetta á að vera einkaframkvæmd og krafist er ríkisábyrgðar. (Forseti hringir.) Ég á við það að ríkisstjórnin er að fara með landspítaladæmið alveg í sömu átt og farið var með Farice sem nú hefur verið virkjuð ríkisábyrgð á.