140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:51]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Í fyrri hluta ræðunnar var dálítið rætt um Seðlabanka, Fjármálaeftirlit og efnahagsráðuneyti. Í andsvari við mig sagði hv. þm. Árni Páll Árnason — af því að ég sé að hann er í salnum — þegar vorum við að ræða hvort ekki væri nauðsynlegt að láta fara fram stjórnsýsluúttekt á Seðlabanka og Fjármálaeftirliti, að það hefði alltaf skort fjárveitingarnar sem áttu að fylgja því máli í þinginu sem væri ástæðan fyrir því að það hefði aldrei verið klárað. Svo fór hann yfir það að mjög reyndir erlendir sérfræðingar væru að vinna þessa greiningu og spurði eftirfarandi spurninga sem ég vil spyrja hvort hv. þingmaður sé sammála, með leyfi forseta:

„Er ekki kominn tími til að við lærum það af hruninu að hafa frið um hagstjórn í landinu? Er ekki tími til kominn að við lærum það af hruninu að reyna að stilla þannig saman strengi að við búum til umgjörð utan um hagstjórn í landinu sem er til þess fallin að við þurfum ekki að rífast um hvern einasta hlut sem upp á kemur? Og er þá ekki ljóst að við þurfum að finna einhverja umgjörð sem er til þess fallin að vera meira en til einnar nætur?“

Svo fjallaði hv. þingmaður um þá vinnu sem væri í gangi og væri eins konar stjórnsýsluúttekt, mætti halda fram, en engin greining lægi fyrir og endaði sitt mál í því andsvari á því að segja, með leyfi forseta:

„Einu boðlegu vinnubrögðin fyrir Alþingi eru að fresta afgreiðslu þessa þáttar málsins fram til hausts, bíða niðurstöðu sérfræðinganna og láta fara fram vandaðri greiningu á kostnaði við ólíkar leiðir.“

Nú vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála þessu mati hv. þm. Árna Páls Árnasonar. Ég hef farið yfir það í ræðum mínum til þessa í dag að þetta sé eitt af þeim atriðum sem ég tel alvarlegust við málið.

Ég er síðan á öndverðum meiði við þá í meiri hlutanum sem vilja umhverfis- (Forseti hringir.) og auðlindaráðuneyti og hef bent á að það hefur ekkert með fyrirmyndir annars staðar á Norðurlöndunum að gera.

En ég vil gjarnan heyra álit hv. þingmanns á (Forseti hringir.) spurningum hv. þm. Árna Páls Árnasonar.