140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:00]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér hefur mikið verið rætt um breytingar á efnahagsráðuneyti og fjármálaráðuneyti þannig að ég ætla ekki að eyða tíma í það þótt það sé mjög alvarlegt mál, en samkvæmt stjórnarsáttmálanum átti að styrkja efnahags- og viðskiptaráðuneytið eins og hefur komið fram. Mínar áhyggjur beinast í auknum mæli að umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eftir því sem umræðunni vindur fram í þessu máli.

Við sem störfum í þinginu vitum að umhverfisráðuneytið er eingöngu rekið á reglugerðarfargani frá Evrópusambandinu. Allar tilskipanir og raunverulega allt lagaumhverfi umhverfisráðuneytis er tekið beint upp úr EES-rétti. Nú á að fara að sameina umhverfis- og auðlindamálin og leggja auðlindir þjóðarinnar inn í umhverfisráðuneytið og það sýnir svo ekki verður um villst að einhver pressa er í gangi um að flýta þessu máli, þvílík er keyrslan hjá ríkisstjórninni.

Það sem er að gerast núna í Evrópusambandinu er að það ásælist allar okkar náttúruauðlindir. Mér finnst orðið frekar ógeðfellt hvernig þetta mál er keyrt áfram. Það kemur fram í meirihlutaáliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, undir kaflanum Umhverfis- og auðlindaráðuneyti, með leyfi forseta:

„Í greiningu á fyrirkomulagi auðlindamála innan stjórnsýslunnar kemur fram að „ekki er hægt að segja að til sé skýr samræmd stefna varðandi rannsóknir, stjórnsýslu og nýtingu auðlinda.“ Þar kemur fram að „í mörgum tilfellum uppfyllir fyrirkomulag auðlindamála ekki kröfur um skýra ábyrgð á rannsóknum, skýr tengsl rannsókna og ráðgjafar, skýr tengsl ráðgjafar og ákvarðana, skýr viðmið um nýtingu auðlindar eða skýra ábyrgð á ákvörðun um nýtingu“.

Nýju umhverfis- og auðlindaráðuneyti er ætlað það mikilvæga hlutverk að leggja grunn að sjálfbærri nýtingu auðlinda í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.“

Hér er beinlínis gefið í skyn að þar sem ekki liggi neitt fyrir um raunverulega nýtingu auðlinda á Íslandi og hverjar þær eru, eigi að safna auðlindamálum saman undir umhverfisráðuneytið en því er, eins og ég sagði áðan, raunverulega stýrt eftir ESB-tilskipunum og reglugerðum. Þetta skelfir mig. Þetta er líka sérstaklega óhugguleg tilhugsun, frú forseti, vegna þess að ég hef í tvígang sem 1. flutningsmaður lagt fram þingsályktunartillögu um skilgreiningu auðlinda ásamt hv. þingmönnum Sigurði Inga Jóhannssyni og Gunnari Braga Sveinssyni. Sú tillaga hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að fá færustu sérfræðinga á sviði auðlindaréttar til að semja frumvarp sem skilgreinir með tæmandi hætti hvað flokkast til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands eru.“

Þingsályktunartillögunni fylgir mjög ítarleg greinargerð þar sem undirkaflarnir eru: Auðlindaréttur sem fræðigrein, almennt um náttúruauðlindir, hugtakið auðlind, þ.e. hverjar þær eru o.s.frv., eignarhald á auðlindum, auðlindir án eiginlegs eignarréttar, leiðir til auðlindastjórnar, hagfræðileg álitaefni og gjaldtaka náttúruauðlinda hér á landi.

Þessu hefur ekki verið sinnt. Ekki hefur verið áhugi hjá ríkisstjórninni að koma tillögunni á dagskrá þingsins en þó er, eins og ég hef áður sagt, einungis ein náttúruauðlind Íslendinga varin samkvæmt íslenskum lögum og það er sjávarútvegsauðlindin.

Með því að stofna nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti er beinlínis lagt til að auðlindirnar fari allar þarna inn, óskilgreindar, í ráðuneytið og lúti þar með lagasetningarvaldi Evrópusambandsins í þessu aðlögunarferli. Evrópusambandið hefði ekki farið af stað með að reyna að ná Íslandi inn í sambandið ef það ætlaði sér ekki að ná árangri í því, við erum til dæmis hér með nýja hugsanlega auðlind, olíu á Drekasvæðinu. Ég hef haft af því fregnir að stefna Evrópusambandsins til næstu 20 ára sé að verða olíuveldi eins og Bandaríkin og Miðausturlönd, og Ísland er eini stökkpallurinn, frú forseti, til þess að það geti orðið. (Forseti hringir.) Þess vegna tel ég að hraðinn á þessu máli nú tengist aðildarumsókninni.