140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:50]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég velti því áðan upp í stuttri ræðu um fundarstjórn forseta hvers vegna þetta mál væri jafnmikið forgangsmál ríkisstjórnarflokkanna og raun ber vitni. Þetta er slíkt forgangsmál að öllu öðru er rutt til hliðar til að unnt sé að ræða það til enda og ljúka afgreiðslu þess hið fyrsta. Svo virðist sem mat ríkisstjórnarflokkanna eða forustumanna ríkisstjórnarinnar sé að töf á málinu skapi stórfellda hættu og valdi miklum vandkvæðum. Ég er ekki viss um, hæstv. forseti, að íslenskur almenningur sé sammála því mati. Ég held að íslenskur almenningur sjái ekki hag sinn batna þó að enn eitt þingmálið sem felur í sér skipulagsbreytingar á Stjórnarráðinu nái fram að ganga.

Ríkisstjórnin hefur, eins og fram hefur komið í þessari umræðu, verið afar upptekin við það frá því að hún tók við völdum að skrifa upp og færa til liði í skipuriti Stjórnarráðsins, skipuriti sínu, en ég er ekki viss um að íslenskur almenningur, heimilin eða fyrirtækin í landinu sjái árangurinn af því. Ég óttast að niðurstaða þessa þingmáls, nái það fram að ganga, verði svipuð og áður, að almenningur muni ekki finna fyrir miklum framförum þó að þessi þingsályktunartillaga nái fram að ganga.

Í umræðunni hefur verið vikið að mörgum þáttum sem eru gagnrýnisverðir varðandi þessa tillögu. Við höfum fjallað um málsmeðferðina og við höfum fjallað um að ýmislegt vanti upp á til að hægt sé að líta svo á að tillagan sé fullbúin. Þar skiptir auðvitað mestu máli að allt kjöt vantar á beinin í sambandi við þær breytingar sem hér eru boðaðar. Hér eru breytingar gerðar á nöfnum ráðuneyta, ráðuneyti formlega lögð niður og ný stofnuð. Eina sem hönd á festir í þessari tillögu er í raun heiti hinna nýju ráðuneyta. Allt sem lýtur að verkaskiptingu milli þeirra er fullkomlega óljóst. Allt sem lýtur að því hvaða stofnanir muni lenda undir hvaða ráðuneyti er óljóst. Allt sem lýtur að því hvaða löggjöf eigi að heyra til ráðuneytunum er óljóst. Þetta á allt eftir að útfæra og þeir textar sem liggja fyrir um þetta eru mjög óskýrir og hvorki umfjöllun í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd né umræður í þingsal hafa náð að skýra þetta.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni og ræðum sem hér hafa verið haldnar er boðað að ráðist verði í þessa vinnu, þ.e. að útfæra verkaskiptingu og annað þess háttar, þegar málið hefur verið samþykkt. Það er ekki búið að undirbúa þær breytingar. Ef búið er að útfæra þær, þ.e. hvernig verkaskiptingin verður nákvæmlega og hvernig stofnunum verði skipað milli ráðuneyta, hefur því ekki verið deilt með okkur í þinginu, þingmenn hafa ekki verið upplýstir um það. Annaðhvort er málið óundirbúið að þessu leyti eða þinginu er haldið í myrkrinu um hvernig hin raunverulega útfærsla á að vera. Hvort tveggja er alvarlegt.

Eins og ég rakti í ræðu sem ég flutti í gær eru ákveðnir þættir í þessu máli þannig að sjá má bæði kosti og galla á þeim tillögum sem hér liggja fyrir. Þetta nefni ég vegna þess að auðvitað er það svo að í umræðum um hvernig skipa eigi málum innan Stjórnarráðs Íslands eru hlutirnir ekkert endilega svartir og hvítir, ekki endilega réttir eða rangir, það má færa rök með og á móti einstökum hugmyndum. Við sjálfstæðismenn rekjum það í nefndaráliti okkar að við viðurkennum að fyrir því geta verið ágæt rök að sameina málefni atvinnuvega undir eitt ráðuneyti. En við rekjum líka að gegn þeirri skoðun séu einnig sterk rök. Hvað þá breytingu varðar komumst við að þeirri niðurstöðu að ókostirnir vegi þyngra en kostirnir og fjöllum um það í nokkru máli, fyrir utan það sem við bendum á og skiptir verulegu máli, að tímasetning breytinganna er ekki góð.

Við nefnum sérstaklega í máli okkar að ákveðnar atvinnugreinar séu í mjög viðkvæmri stöðu vegna þess að sótt er að þeim innan lands og einnig vegna þess að aðildarviðræður við Evrópusambandið skapa sérstaklega viðkvæma stöðu fyrir greinar á borð við sjávarútveg og landbúnað. Allar breytingar sem hugsanlega geta veikt stjórnsýslu og stefnumótun á sviði landbúnaðarmála og sjávarútvegsmála núna eru því varasamar.

Við segjum hins vegar um annan þátt þessarar tillögu sem lýtur að því að færa ákveðna þætti varðandi auðlindanýtingu til umhverfisráðuneytis, að fyrst og fremst mæli tvennt á móti því. Við eigum bágt með að sjá nokkra kosti við þá breytingu. Við nefnum að þar geti fyrst og fremst raskast jafnvægi sem í dag er milli auðlindanýtingar annars vegar og auðlindaverndar eða verndar náttúrunnar hins vegar. Í dag er auðlindanýting á vegum nokkurra atvinnuvegaráðuneyta en verndin liggur hjá umhverfisráðuneyti. Þetta skapar vissulega ákveðna togstreitu í stjórnkerfinu og við nefnum að sú togstreita þurfi ekki að vera af hinu illa, hún sé í raun og veru nauðsynleg, það sé nauðsynlegt að sjónarmið auðlindanýtingar og verndar togist á. Við höfum áhyggjur af því að þetta jafnvægi raskist ef auðlindanýtingin verður að stórum hluta flutt til umhverfisráðuneytis þannig að verndarsjónarmiðin verði miklu þyngri á vogarskálunum auk þess sem við nefnum — sem skiptir ekki síður máli — að í tillögunni sjálfri, þingsályktunartillögu hæstv. forsætisráðherra sem við ræðum í dag, er auðvitað fullkomlega óljóst hver verkaskiptingin verður milli nýs atvinnuvegaráðuneytisins og nýs auðlinda- og umhverfisráðuneytis á sviði auðlindanýtingar. Eins og einn ágætur þingmaður nefndi í umræðu fyrr í kvöld er því það fyrsta sem gerist, verði þessi tillaga samþykkt á þingi, að togstreita verður innan ríkisstjórnar, innan stjórnarflokka og innan stjórnkerfisins um það hversu mikill hluti ákvarðanatöku á sviði auðlindanýtingar á að lenda umhverfisráðuneytismegin og hve mikill atvinnuvegaráðuneytismegin. Það verða bara slagsmál um það, bæði á hinum pólitíska vettvangi og í embættiskerfinu.

Sama á auðvitað við um ítrekaðar spurningar um hvar einstakar stofnanir eigi að lenda. Þeim hefur líka verið svarað með mjög óljósum og misvísandi hætti. Við vitum, þingmenn í dag, með öðrum orðum ekkert hvert þær breytingar leiða sem mælt er fyrir í tillögunni.

Þriðji efnisþáttur tillögunnar sem lýtur að efnahagsmálum og flutningi þeirra til fjármálaráðuneytis er kannski eins og sá fyrsti, að fyrir því má færa rök og gegn því má færa rök. Eftir því sem ég skoða þessi mál betur styrkist ég í þeim efasemdum sem ég hef um að rétt sé að stofna ráðuneyti sem hefur svo mikla yfirburðastöðu á sviði ríkisfjármála og efnahagsmála sem nýtt fjármála- og efnahagsráðuneyti hefði. Ég tel að það sé afar varasamt. Í greinargerð með tillögunni og í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er talað óljóst um einhvers konar hagráð eða jafnvel enn óljósar um einhvers konar stofnun á borð við Þjóðhagsstofnun eða þjóðhagseiningu, eða hvaða orð menn nota, sem einhvers konar mótvægi við ráðuneytinu. Ég tel að hugmyndir um slíkt mótvægi séu harla léttvægar þegar við erum á hinn bóginn að stofna til gríðarlega öflugs efnahagsráðuneytis sem á að hafa í hendi sér alla þræði ríkisfjármálastjórnunar, peningamálastjórnunar, hagrannsókna, hagspárgerðar og ég veit ekki hvað og hvað. Allur þunginn á sviði efnahagsmála á að liggja hjá því eina ráðuneyti, stefnumótun, rannsóknir og annað þess háttar. Sett er á eitthvert almennt tal um að hugsanlega verði síðar stofnað einhvers konar óháð ráð sem eigi að mynda mótvægi. Þær hugmyndir eru enn þá bara orðin tóm, hæstv. forseti. Lauslegar viðræður, menn hafa viðrað hugmyndir en engar hafa verið mótaðar eða liggja fyrir með skýrum hætti þannig að líta á það sem mótvægi er harla létt á vogarskálunum, svo ekki sé meira sagt.

Þar að auki er rétt að benda á að eina faglega greiningarvinnan og greinargerðin sem liggur til grundvallar þeirri stefnumörkun að sameina fjármálaráðuneytið og efnahagsráðuneytið er einfaldlega alls ekki skýr hvað varðar niðurstöður um þetta efni. Þar er því teflt fram sem tveimur jafngildum möguleikum að annars vegar sé hægt að efla efnahags- og viðskiptaráðuneytið eins og það er í dag með því að styrkja hinn þjóðhagslega þátt þar innan dyra, eða að sameina við efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Eina vinnan sem farið hefur fram á vegum hæstv. ríkisstjórnar í þessum efnum gefur því niðurstöðu sem býður upp á valkosti en engin sérstök rök koma fram til að styðja annan valkostinn umfram hinn.

Samræður við hagsmunaaðila, stofnanir og álitsgerðir um þetta efni hefðu verið þarfar frá miklu fleiri aðilum en bara einum fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra og efnahagsráðuneyti forsætisráðherra. Auðvitað hefði þurft að leita víðar fanga. Það hefði einnig verið eðlilegt, svo annað sé ekki nefnt, að bíða eftir að lokið yrði við greiningarvinnuna sem fyrrverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra Árni Páll Árnason setti á af stað og stýrt er af enn einum fyrrverandi ráðherranum, Jóni Sigurðssyni, fyrrverandi bankastjóra og fyrrverandi formanni stjórnar Fjármálaeftirlitsins, og sem að koma erlendir sérfræðingar sem vel þekkja til þessara mála bæði hér á landi og erlendis. Það hefði verið eðlilegra að bíða eftir niðurstöðu þessa starfshóps áður en stefna var mörkuð.

Það er svo einkennilegt í þessu máli að fyrst á að taka ákvörðunina, fyrst á að bera niðurstöðuna undir þingið og komast að niðurstöðu, og síðan á eftir á að fara í hina eiginlegu vinnu við útfærslu, sem auðvitað skiptir öllu þegar til kastanna kemur. Það hvað ráðuneytin heita skiptir harla litlu máli í samanburði við að skoða hvaða völd lenda hjá einstökum ráðherrum og einstökum ráðuneytum, hvaða stofnanir, hvaða verkefni og löggjöf á hvaða sviðum. Það er auðvitað það sem skiptir máli og um það hafa snúist þær spurningar sem við höfum spurt í þessari umræðu en ekki fengið svör við.