140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka mjög skýrt svar, sérstaklega það sem snýr að fjárstjórnarvaldi Alþingis. Það má hæglega snúa þessu við vegna þess að það mál sem nú er til umræðu er ekki yfirlit frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Nú byrjar þetta á þann hátt að Alþingi samþykkir óútfylltan tékka til að leyfa framkvæmdarvaldinu að leika sér með og framkvæmdarvaldið gerir það sem það vill, kemur svo með málið og beiðnina inn í þingið á fjáraukalögum og þá fyrst, í gegnum fjáraukalög, kemur fjármálaráðuneyti að málinu. Fjárveitingavaldið er orðið einu ári á eftir. Þá spyr ég: Hver verður þá hlutur Ríkisendurskoðunar í því að yfirfara ríkisreikninga? Það er búið að snúa öllu á hvolf, frú forseti, sem er náttúrlega alveg í stíl við þá verklausu ríkisstjórn sem hér situr.

Ég minni þingmanninn á að ég (Forseti hringir.) var einnig með spurningu varðandi það ef ríkisstjórnin spryngi og þingsályktunartillagan ætti að koma til framkvæmda í haust.